Fjárfestingarsjóðurinn 105 Miðborg hefur stefnt Íslenskum aðalverktökum (ÍAV) og krefjast 3,9 milljarða króna vegna ágreinings um uppbyggingu lóða á Kirkjusandi . Stefnan var lögð fram á föstudaginn síðasta samkvæmt útboðslýsingu Íslandsbanka, móðurfélags Íslandssjóða. 105 Miðborg krafðist endurgreiðslu á bótagreiðslum vegna tafa við framkvæmdirnar og tjóns af samningsrofum.

ÍAV hafði áður stefnt 105 Miðborg og Íslandssjóðum þann 11. maí og krafist 3,8 milljarða króna þar sem verktakafyrirtækið taldi riftun á verkkaupasamningnum ólöglega. ÍAV krafðist þess einnig að embætti sýslumanns kyrrsetji eignir 105 Miðborgar. Í útboðslýsingunni kemur fram að Íslandssjóðir hafi mótmælt aðild sinni að málinu þar sem verkkaupasamningurinn hafi verið á milli ÍAV og 105 Miðborgar.

Sjá einnig: Tilgangur riftunar að valda ÍAV tjóni

Undanfari málsins er sá að þann 19. febrúar síðastliðinn rifti 105 Miðborg, sem er rekið af Íslandssjóðum, samningnum við ÍAV og hafa aðrir verktakar nú verið ráðnir inn í staðinn fyrir. Ástæðan sem 105 Miðborg gaf upp fyrir rituninni voru vanefndir af hálfu ÍAV.

Ósættið snýr að ákvæðum verksamnings um byggingu þriggja húsa á Kirkjusandsreitnum. ÍAV hefur þegar skilað af sér tveimur af þremur byggingum og taldi að kaupandi verksins ætti að greiða fyrir hluta verksins sem voru utan samningsins. Þá taldi ÍAV að taka þyrfti tillit til utanaðkomandi þátta, einkum Covid-19, við ákvörðun viðbótarkostnaður og verktíma.