Samsung Galaxy S3 var mest seldi snjallsíminn í heiminum á þriðja ársfjórðungi, að því er segir í frétt Reuters. Seldist Samsung síminn betur en iPhone síminn frá Apple og er það í fyrsta skipti í tvö ár þar sem sími frá Apple er ekki í efsta sætinu.

Greiningarfyrirtækið Strategy Analytics gerir ráð fyrir því að alls hafi selst um 18 milljónir af Galaxy S3 símanum á þriðja ársfjórðungi á meðan um 16,2 milljónir iPhone 4S símar seldust á sama tíma. Ekki er hins vegar ólíklegt að minni sala á iPhone símum skýrist af því nýr sími frá Apple, iPhone 5, fór í sölu alveg í lok tímabilsins og því hafa eflaust margir frestað símakaupum þar til hann kom á markað. Er því búist við því að Apple taki á ný fram úr Samsung þegar tölur fyrir fjórða fjórðung liggja fyrir.