Á árunum fyrir hrun viðskiptabankanna jukust ríkisútgjöld stórkostlega og framlög til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála jukust um tugi prósenta að raunvirði á þessum árum. Kemur þetta fram í grein, sem Illugi Gunnarsson, Alþingismaður, skrifar í Morgunblaðið í dag. Segir hann að af þessari staðreynd megi reyndar sjá hversu galin fullyrðing það er að þjóðfélaginu hafi á þeim árum verið umturnað í nafni frjálshyggju.

„En í ljósi þess hversu hratt og mikið rekstur hins opinbera þandist út á árunum fyrir hrun hljóta nú að vera tækifæri til að spara meira en gert hefur verið. Á það ekki hvað síst við nú, þegar efnahagur þjóðarinnar og ríkisins hefur veikst svo mjög sem raun ber vitni. Kjarni málsins er hins vegar sá, að ef við náum ekki að tökum á skuldastöðunni þá nær hún tökum á okkur.“

Segir Illugi að eftir því sem skuldirnar aukast, sama hvernig þær eru tilkomnar, eykst vaxtabyrðin. „Geta okkar til að standa undir skuldunum er takmörkuð. Það er sama hversu mjög sem menn óska þess að geta boðið upp á opinbera þjónustu, þá verður sú staðreynd ekki umflúin að sami peningurinn verður ekki notaður tvisvar. Því fleiri krónur sem fara í vexti, því færri krónum getum við ráðstafað til menntunar, heilbrigðis- og velferðarmála. Því er það svo að þeir sem í nafni velferðarkerfisins neita að takast á við skuldavanda ríkissjóðs eru í rauninni að grafa undan velferð framtíðarinnar. Sú afstaða, en ekki skynsamlegt aðhald, er mesta ógnunin við þá velferð sem við Íslendingar óskum okkur.“