Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur verið gagnrýninn á  söluferli Arion banka. Fyrir þingkosningarnar í október kallaði Sigmundur eftir því að ríkið keypti Arion banka að fullu í krafti forkaupsréttar sem miðast við 0,8 krónur fyrir hverja krónu af eigið fé. Fjármálaráðuneytið taldi að skilyrði fyrir nýtingu forkaupsréttarins væru ekki til staðar.

Ríkið féll frá forkaupsréttinum meðan á skráningu stóð sem var í samræmi við afkomuskiptasamning ríkisins og Kaupþings. Þar var miðað við að forkaupsréttarákvæðinu yrði breytt meðan á útboði og skráningu á markað stæði yfir samkvæmt  ráðgjöf  óháðs alþjóðlegs fjárfestingabanka. Ákvæðið virkist á ný eftir útboðið. Söluverð á hlut í Arion banka í útboðinu var um 0,67 krónur fyrir hverja krónu af eigin fé en verðið hefur síðan hækkað um ríflega 10%. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, bendir á að forkaupsrétturinn verði áfram til staðar á þeim hluta Arion banka sem enn er í eigu Kaupþings.

„Í stöðugleikasamningunum var út frá því gengið að ef menn ætluðu sér að sækja markaðsverð á hlutum í bankanum þá yrði að aðlaga framkvæmd forkaupsréttarins að skráningunni. Við fengum álit sjálfstæðs banka hvernig bæri að bera sig að. Tímabundið til 1. júlí myndi ríkið ekki beita forkaupsrétti sínum ef það væri að skrá bankann. Þetta er nákvæmlega í samræmi við samninginn. Kauprétturinn er enn til staðar á þeim hlutum sem Kaupþing heldur á. Að öðru leyti finnst mér mög athyglisvert að menn séu ennþá þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki nægjanlega mikið í fjármálafyrirtækjum. Það er í mínum huga algjörlega galin hugmyndafræði að ríkið eigi núna að fara að setja tugi milljarða til viðbótar við það sem ríkið á nú þegar í Landsbankanum og Íslandsbanka í hlutabréfakaup. Ég sé bara enga vitglóru í því,“ segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .