Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, sem rekur Bílaleigu Akureyrar, stærstu bílaleigu landsins, segist að ekki hafi gengið jafn erfiðlega að ráða inn starfsfólk um árabil þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi sjaldan verið hærra. Of margir á atvinnuleysisskrá virðist hafa lítinn áhuga á þeim störfum sem séu í boði.

„Þetta er algjörlega galið. Það eru greinilega of margir þarna úti sem hafa ekki áhuga á vinnu og eru að mínu mati að misnota þau úrræði sem íslensk stjórnvöld bjóða upp á og í rauninni atvinnuleysisstryggingasjóð,“ sagði Steingrímur í viðtali við Bítið í morgun.

Steingrímur nefnir sem dæmi að Höldur hafi auglýst starf á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysi er hæst á landinu, og tveir hafi sótt um starfið. Af tíu nafna lista sem Vinnumálastofnun gaf upp vegna starfs sem Höldur vildi ráða í á Norðurlandi hafi einn verið í vinnu, þrír ekki verið með bílpróf, fimm haft lítinn áhuga á starfi — ekki hafi einu sinni tekist að byrja að ræða launaliðinn. Sá tíundi á listanum var ráðinn. Enn sé ekki búið að fullráða í öll störf.

Steingrímur spurður út í hvort launin sem ferðaþjónustufyrirtæki á borð við Höldur væru að bjóða væru ekki einfaldlega of lág. „Ég ætla að frá að snúa þessu við. Þó það sé ljótt að segja það eru atvinnuleysisbætur bara orðnar of háar. Við í ferðaþjónustunni erum að borga hvað hæstu launin í allri Evrópu.“ Auk þess sé kaupmáttaraukning laun langmest á Íslandi meðal Evrópuþjóða. „Þannig að það er klárlega ekki það að sé verið að greiða léleg laun.“

Steingrímur segir þau störf sem hann hafi verið að auglýsa í þvotti og afgreiðslu sé boðið um 320 til 330 þúsund í grunnlaun en með vaktaálagi og öðru geti starfsfólk hæglega komið laununum upp í 450 til 500 þúsund krónur á mánuði og jafnvel hærra eftir því hvað það vinni mikið.

Kallar eftir auknu eftirliti

Steingrímur kallar eftir því að eftirlit með þeim séu á atvinnuleysisbótum verði aukið og að fólk geti ekki dvalið um lengri tíma erlendis á atvinnuleysisbótum án þess að hafa mikinn áhuga á að sækjast eftir störfum hér á landi. Þá sé of algengt að fólk á bótum komist upp með að vinna svart og hafi á sama tíma lítinn áhuga á þeim störfum sem auglýst séu fyrir atvinnulausa.. „Því miður því þetta er sorglegt en þetta er staðreynd,“ segir Steingrímur.