„Einhvers staðar verður að draga línur. Þetta snýst ekki um efnið. En gallabuxur eru það óformlegur klæðnaður að hann passar ekki á Alþingi.“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. Hann bendir á það í samtali við vb.is það hafa verið heiðurmanna- og kvennasamkomulag að menn reyni að hafa klæðaburð á Alþingi með þokkalegum hætti.

Eins og vb.is greindi frá fyrr í dag var Elín Hirst , þingkona Sjálfstæðisflokksins, skikkuð til að skipta um buxur skömmu eftir upphaf þingfundar í dag. Hún var í buxum sem líktust gallabuxum. Það þótti fyrir neðan virðingu þingsins. Elín sagðist ætla heim og hafa fataskipti.

Helgi rifjar upp að á árum áður hafi verið mælst til þess að karlmenn væru með hálstau í þingsal. Nú hefur verið horfið frá því. Þingmenn verða hins vegar að vera snyrtilegir til fara og í jakka og er mælst til þess sama af þingkonum.