Höfðað hefur verið mál gegn Arnarlaxi, Matvælastofnun og Umhverfisstofnun. Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, flytur málið fyrir hönd málsóknarfélagsins Náttúruverndar 1. Hann segir að við þingfestu málsins á þriðjudaginn verði lögð fram umfangsmikil gögn, meðal annars vísindaleg gögn, sem styðji fullyrðingarnar sem settar eru fram í stefnunni. Hann segist sannfærður um málið muni fara alla leið til Hæstaréttar Íslands.

Um árabil hafði Fiskistofa eftirlit með Fiskeldi og gaf út rekstrarleyfi. Árið 2015 varð breyting á þegar MAST tók við þessu hlutverki. Raunar er regluverið í kringum leyfisveitingar vegna fiskeldis nokkuð flókið. Í stuttu máli er ferlið þannig að tilkynnt er um framkvæmd til Skipulagsstofnunar, sem metur hvort framkvæmdin sé háð mati á umhverfisáhrifum eða ekki. Ef Skipulagsstofnun telur fiskeldið ekki háð umhverfismati eða að umhverfisáhrif séu óveruleg þá þarf fiskeldisfyrirtækið að sækja um starfs- og rekstrarleyfi. Samkvæmt lögum veitir Matvælastofnun rekstrarleyfi en Umhverfisstofnun starfsleyfi.

Jón Steinar segir að leyfisveitingakerfið í dag sé gallað.

„Undirbúningur fyrir veitingu þessara leyfa er alls ekki samkvæmt íslenskum lögum. Síðan teljum við líka að það sé ekki heimilt samkvæmt íslenskum lögum að veita einkaaðilum afnot af hafsvæði utan netlaga. Samkvæmt stjórnarskránni þarf  lagaheimild fyrir ríkið til að ráðstafa fasteignaréttindum og þetta eru auðvitað bara þess háttar réttindi. Þetta hafsvæði er auðlind í eigu þjóðarinnar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .