Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, segir samanburð Viðskiptablaðsins á verðtryggðu og óverðtryggðu láni gallaðan þar sem lánin séu greidd upp mishratt.

„Mjög mikið er greitt af óverðtryggða láninu fyrstu árin og á meðan rýrnar höfuðstóllinn í verðbólgunni. Til að gera samanburðinn eðlilegri hefði þurft að gera greiðslur á hverju ári svipaðar fyrir bæði lánin, annað hvort með því að láta þann sem er með verðtryggt lán greiða það hraðar niður en um var samið eða þann sem var með óverðtryggt lán greiða hægar,“ segir Gylfi.

Hann bætir við að samanburðurinn geri lítið annað en að sýna fram á að þeir sem taki lán til skamms tíma greiði lægri vexti þegar upp er staðið heldur en sá sem tekur lán til lengri tíma. Þeir sem taki verðtryggð lán geta náð sama árangri með því að annað hvort semja um styttri lánstíma í upphafi eða með því að greiða lán hraðar niður en þeir þurfa.

„Sögulegur samanburður á sambærilegum verðtryggðum og óverðtryggðum vöxtum á Íslandi sýnir yfirleitt að verðtryggðu lánin eru örlítið hagstæðari, þ.e. raunvextir á þeim eru lægri eins og við er að búast vegna þess að áhættuálag er lægra enda þarf ekki að gera ráð fyrir verðbólguóvissu í slíkum lánum. Af og til snýst þetta við til skamms tíma, þegar verðbólga skýst upp óvænt og lækkar raunvexti á óverðtryggðum lánum niður fyrir það sem búist var við þegar um þá var samið. Það er ekki við því að búast að það haldi til lengdar nema lánveitendur reikni kerfisbundið með lægri verðbólgu en raunin verður, sem er ekki líkleg forsenda,“ segir Gylfi.

Það geti verið mjög erfitt viðureignar fyrir lántakendur með óverðtryggð lán á markaðsvöxtum ef verðlag og vextir sveiflast mikið, eins og sögulega hefur verið reynslan með íslensku krónuna. Greiðsla af óverðtryggða láninu í dæminu sé hátt í fjórðungur höfuðstólsins fyrsta árið, sem afar ólíklegt er að venjulegir íbúðakaupendur ráði við.

Nánar um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blað vikunnar undir liðnum Tölublöð.