Ánægjan með störf Barack Obama Bandaríkjaforseta hefur aukist umtalsvert síðustu daga. Samkvæmt síðustu könnun Gallup eru 51% Bandaríkjamanna ánægðir með störf forsetans, sem er 3% aukning á fjórum dögum. Að sama skapi eru færri óánægðir með störf Obama eða 44% sem er 4% minnkun milli ára.

Talsverðar sveiflur hafa verið á þessum mælingum undanfarið en aukin ánægja með störf forsetans kemur í kjölfar frétta af ofsaveðrinu á austurströnd Bandaríkjanna af völdum fellibylsins Sandy. Erfitt er þó að fullyrða í dag að það sé vegna viðbragða forsetans af ofsaveðrinu, það mun koma í ljós næstu daga.

Athygli vekur hins vegar að þetta hefur ekki haft áhrif á mælingar meðal skráðra kjósenda og líklegra kjósenda. Obama og Mitt Romney eru hnífjafnir í skoðanakönnum með 48% stuðning meðal skráðra kjósenda. Ef litið er á líklega kjósendur hallar á forsetann. Í þeirra röðum er Romney með stuðning 51% á móti 46% hjá Obama.

Friðjón Friðjónsson,sem hefur fylgst grannt með bandarískum stjórnmálum undanfarin ár, telur í pistli á Eyjunni líklegt að Obama vinni.

Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu á þriðjudaginn í næstu viku, þann 6. nóvember