Sjálfstæðisflokkur og Samfylking bæta við sig mestu fylgi samkvæmt nýrri Gallupkönnun, sem greint var frá í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins . Fylgi Framsóknarflokks og Bjartrar framtíðar minnkar á sama tíma. Fylgi við Vinstri græn og Pírata eykst. Þrátt fyrir fylgistap mælist Framsóknarflokkurinn enn stærsti flokkurinn og fær nú tæplega 27% fylgi.

Sjálfstæðisflokkur bætir við sig og fær rúm 24 prósent. Samfylkingin bætir við sig þremur prósentustigum og fer yfir fimmtán prósent. Vinstri græn bæta líka við sig og mælast með tæp níu prósent. Píratar eru enn á uppleið og fá rúm átta prósent en Björt framtíð dalar og fær átta prósent. Önnur framboð eru langt frá fimm prósenta markinu, sem tryggir uppbótarsæti.

Samkvæmt þessu fær Framsóknarflokkur 20 þingmenn, Sjálfstæðisflokur 17 og Samfylking 10 þingmenn. Vinstri græn fá sex þingmenn en Píratar og Björt framtíð fimm hvor.