Ari Guðmundsson, sviðsstjóri hjá verkfræðistofunni Verkís segir til skoðunar að byggja hótel hér á landi úr gámaeiningum, þar á meðal hvort það geti uppfyllt íslenskar byggingarreglugerðir.

Segir hann að um sé að ræða fullfrágengnar húseiningar úr stáli, og töluverður munur sé á þeim og hefðbundnum hugmyndum fólks þegar það heyri orðið Gámur að því er fram kemur á Vísi .

„Þetta eru gámar sem eru keyptir erlendis og eru fullfrágengnir að innan, jafnvel með húsbúnaði líka,“ segir Ari. „Menn eru að skoða það að herbergisálmur á hótelum séu gerðar úr þessu en móttökur og annað byggt á hefðbundnari hátt.“

Þurfa vottunarferli en þegar í notkun víða um Evrópu

Ari segir að þegar hafi verið byggð hótel úr svona einingum í Bretlandi, Noregi og Svíþjóð, en til þess nýta þessar einingar hér á landi þurfi að fara í gegnum vottunarferli.

„Það er það sem fólk er að vinna í núna, að afla frekari upplýsinga um byggingarefnið sem er í þessu og fara í gegnum það hvort það stenst byggingarreglugerðir,“ segir Ari. „Lykillinn í þessu er að við erum að skoða, af því að þetta eru mismunandi einingar erlendis, hvort þetta sé allt eitthvað sem uppfyllir þau gæði sem við viljum hafa hér á Íslandi og hvort þetta uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar.“