*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 13. janúar 2019 17:02

Gamaldags hugsun um afleiður

Fjármálaráðherra segir það ekki stefnubreytingu að Þjóðarsjóður fjárfesti ekki í nýsköpun og hjúkrunarrýmum.

Höskuldur Marselíusarson
Fjármálaráðherra segir það ekki stefnubreytingu að nýr Þjóðarsjóður fjárfesti ekki í nýsköpun og hjúkrunarrýmum aldraðra líkt og talað er um í stjórnarsáttmála.
Eva Björk Ægisdóttir

Bjarni Benediktsson segir það rangt sem fram hafi komið í gagnrýni á nýframkomin lög um Þjóðarsjóð að fjárfestingarstefna hans verði ekki nægilega varfærin.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um segir Bjarni að svona sjóður hefði komið sér vel í hruninu, en hann verði ekki nýttur til sveiflujöfnunar í hagkerfinu heldur einungis við meiriháttar áföll. Auk þess muni hann verja góð lánskjör ríkisins og hjálpa því að standa við leiðandi hlutverk sitt við að halda uppi virkum skuldabréfamarkaði.

„Það kemur mér á óvart ef menn telja að hér sé verið að setja á fót einhvern vogunarsjóð eða áhættusækinn sjóð, það er alls ekki svo og mjög langsótt að reyna að draga það fram úr frumvarpinu. Í fyrsta lagi er honum alfarið bannað að fjárfesta í krónueignum heldur er þeim fyrst og fremst beint til útlanda,“ segir Bjarni, en t.a.m. hafa heimildir til skortsölu og afleiðuviðskipta í 9. og 10. grein laganna sætt gagnrýni.

„Það er gamaldags hugsun að afleiður og skortsölur séu fyrst og fremst einhver áhættutæki, það er skynsamlegt fyrir sjóð að hafa fjölbreytni í sínum fjárfestingarkostum, því það er einmitt leiðin til að dreifa áhættunni. Ég hef tekið eftir þessari gagnrýni en finnst hún ótímabær, því þó að lagaheimildirnar séu svona á eftir að móta stefnuna sem stjórn sjóðsins mun gera, en hún verður svo staðfest af ráðherra. Ég hafna því alfarið að lögin séu smíðuð þannig að verið sé að bjóða heim stórkostlegri áhættu, það er verið að leita að góðri langtíma ávöxtun á sjóðinn, ekki að hámarka ávöxtunina á hverjum tíma.“ Bjarni segir að með setningu laganna sé fyrst og fremst ætlunin að skapa skýra umgjörð og afgerandi tilgang fyrir sjóðinn.

Flóknara ef fjárfest í gegnum sjóðinn

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að hlutverk sjóðsins verði að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum, auk fjárfestinga í nýsköpun og hjúkrunarrýmum aldraðra. Eins og frumvarpið er nú er hann hins vegar einungis tiltækur þegar meiri háttar áföll dynja á þjóðinni, en fjárfestingarstefnan að öðru leyti óháð væntingum stjórnmálamanna og skilyrt við erlendar fjárfestingar. Lögin gera þó ráð fyrir að til ársins 2024 geti allt að 16 milljarðar af þeim arðgreiðslutekjum af Landsvirkjun sem eiga að renna í sjóðinn farið í fyrrnefnd verkefni, en þeir fjármunir renni ekki í gegnum sjóðinn.

Bjarni segir það ekki vera stefnubreytingu frá stjórnarsáttmálanum að þessum peningum verði ekki fjárfest úr sjóðnum heldur hafi ekki verið búið að útfæra fyrirkomulagið. „Við undirbúning frumvarpsins skýrðist betur að það væri einfaldast og samrýmdist best hefðbundinni ákvarðanatöku stjórnvalda um ríkisfjármálaáætlanir að verja þessum viðbótartekjum ríkissjóðs beint til viðkomandi verkefna frekar en í gegnum sjóðinn,“ segir Bjarni.

„Annars hefði hlutverk sjóðsins og stjórnar hans orðið margþættara og flóknara. Einnig hefði það haft í för með sér töluvert flækjustig í reikningshaldi hins opinbera, svo sem að færa fjármuni fram og til baka á milli orkuvinnslufyrirtækja, ríkissjóðs, þjóðarsjóðs og framkvæmdasjóðs aldraðra vegna byggingu hjúkrunarrýma.“

Bjarni segir nauðsynlegt að peningarnir sem fari í sjóðinn fari ekki út í ríkisfjármálin beint, og blæs á gagnrýni um að frekar ætti að nýta peningana til innviðauppbyggingar, gæluverkefna ýmiss konar eða jafnvel skattalækkana.

„Ég held að ríkissjóður sé ágætlega fær um að byggja upp innviði landsins. Oft á tíðum eru það sömu mennirnir og gagnrýna vöxt ríkisútgjalda sem telja að það sé óskynsamlegt að leggja til hliðar. Það eru nefnilega einhver ytri mörk hve mikið umfang ríkissjóður getur ætlað sér í hagkerfinu hér á landi, ríkissjóður hefur aldrei staðið sterkar, og engar ástæður til að ætla annað en hann geti vel sinnt því hlutverki sínu,“ segir Bjarni sem segir sjóðnum ekki heldur ætlað að taka þátt í uppbyggingu þeirra tollvega sem gert er ráð fyrir í samgönguáætlun.

„Ég held að það sé einfaldlega enginn skortur á fjármagni sem hefði áhuga á að taka þátt í slíkum verkefnum. Fjármagnið í sjóðinn kemur frá væntum auknum arðgreiðslum Landsvirkjunar, sem gætu vaxið upp í 10 til 20 milljarða á ári á komandi árum, og gert er ráð fyrir að sjóðurinn nemi um 10% af landsframleiðslu sem þýðir í dag í kringum 300 milljarðar. Auðvitað væri hægt, eins og sumir vilja, að ráðstafa þessu fjármagni beint í ný ríkisútgjöld.

Það væri hins vegar óskynsamlegt, ég vil frekar taka þessa fjármuni til hliðar ella hefði ég einmitt trú á því að við þessar auknu arðgreiðslur að ríkisútgjaldastigið vaxi sem ég myndi gjalda mikinn varhug við. Það er auðvitað fórnarkostnaður við að velja eina leið umfram aðra, en aðrar leiðir myndu fela í sér að sérstakur fjárhagslegur viðbúnaður stjórnvalda vegna meiri háttar áfalla væri þeim mun veikari.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.