Björn Bjarnason, fyrrum menntamála- og síðar dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar kallar Viðreisn gamaldags millfærsluflokk í nýjum pistli á heimasíðu sinni bjorn.is .

Fækkun millifærslusjóða áhersluatriði í endurreisn Íslands

„Þegar ráðist var í endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs undir forystu Sjálfstæðisflokksins fyrir aldarfjórðungi var höfuðáhersla lögð á að fækka millifærslusjóðum af ýmsu tagi,“ segir Björn í pistli sínum.

„Þar sátu stjórnmálamenn og embættismenn yfir hlut þeirra sem unnu að verðmætasköpuninni. Sjóðirnir voru leifar þeirrar skoðunar að þeir sem sköpuðu verðmætin hefðu minna vit á ráðstöfun þeirra en stjórnmálamenn og embættismenn.“

Innviðasjóður endurkoma millifærslusjóða

Segir Björn Viðreisn nú boða endurkomu millifærslusjóðanna, með svokölluðum innviðasjóði sem flokkurinn kynnti til sögunnar á blaðamannafundi á sunnudag.

Blaðamannafundurinn var haldinn á sama tíma og stjórnarandstöðuflokkarnir á þingi hittust til að ræða samstarfsgrundvöll eftir kosningar.

Uppboðsleið aukin gjaldtaka á útgerðarmenn

„Sjóðurinn er hluti afgjaldskerfis innan sjávarútvegsins sem Viðreisn ætlar að nota til að auka gjaldtöku á útgerðarmenn undir því yfirskini að afgjaldinu verði „varið til innviðauppbyggingar á þeim svæðum þar sem kvóti fiskiskipa er upprunninn“,“ segir Björn og vísar í stefnu flokksins.

„Að sjálfsögðu verður ekkert sjálfvirkt í þessu efni heldur verður komið á fót opinberu kerfi undir stjórn stjórnmálamanna til að halda utan um þennan nýja millifærslusjóð og ráðstafa fé úr honum.“

Segir Björn að flokkurinn sýni með þessari tillögu að þar fari gamaldags millifærsluflokkur og að í raun þurfi það ekki að koma á óvart vegna aðdáunar flokksins á ESB enda einkennist kerfi þess af sjóðum og millifærslum.