*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 13. október 2021 20:01

Gamaldags netleikjasíða malar gull

Íslensk netleikjasíða Einars Þórs Egilssonar hagnaðist samanlagt um 636 milljónir á síðasta og þar síðasta ári.

Sveinn Ólafur Melsted
Einar Þór Egilsson, eigandi Rauðáss Hugbúnaðar og hugarsmiður CardGames.io.
Eyþór Árnason

Rauðás Hugbúnaður ehf. hagnaðist um 356 milljónir króna á síðasta ári, en árið áður nam hagnaður félagsins 280 milljónum króna. Samanlagður hagnaður félagsins yfir umrædd tvö ár er því 636 milljónir króna. Tekjur félagsins námu 344 milljónum króna á síðasta ári og jukust um 14 milljónir króna frá fyrra ári.

Rekstrargjöld námu 77 milljónum króna og þar af námu laun og launatengd gjöld 56 milljónum króna en ársverk voru fjögur. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam því 267 milljónum króna. Þá námu fjármunatekjur 177 milljónum króna, en þar munaði langmest um 161 milljónar króna afkomu verðbréfa. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam þar af leiðandi 445 milljónum króna á síðasta ári.

Eignir félagsins námu tæplega 1,3 milljörðum króna í lok síðasta árs og munaði þar mest um verðbréfaeign upp á ríflega einn milljarð króna sem samanstendur af eignarhlut í þremur sjóðum í stýringu Landsbankans. Skammtímaskuldir námu 94 milljónum króna í árslok og eigið fé tæplega 1,2 milljörðum króna, en engar langtímaskuldir eru á hendur félaginu. Eiginfjárhlutfall félagsins var því 93%.

Leiða má líkur að því að ofangreindar tölur komi lesendum í opna skjöldu, enda margir hverjir ekki heyrt félagsins getið áður. Starfsemi félagsins snýst fyrst og fremst um rekstur leikjasíðunnar CardGames.io. Um er að ræða vefsíðu með einföldu viðmóti þar sem notendum gefst kostur á að spila hina ýmsu sígildu leiki sem spilaðir eru á borðspil, sem og hefðbundin 52 spil. Má þar nefna spil á borð við veiðimann, skítakall, kapal, skák, sudoku og yahtzee.

Maðurinn á bakvið síðuna og eigandi Rauðás Hugbúnaðar er tölvunarfræðingurinn Einar Þór Egilsson. Í samtali við Viðskiptablaðið leggur hann spilin á borðið og fer yfir sögu leikjasíðunnar.

Tekjur af Google auglýsingum

Einar kveðst löngum haft ástríðu fyrir því að forrita og dunda sér við hin ýmsu forritunarhliðarverkefni í frítíma sínum. Eitt kvöldið, fyrir rúmum áratug, hafi hann ákveðið að forrita sitt uppáhaldsspil, skítakall. Hann hafi ekki fundið neina nothæfa útgáfu af skítakalli í netheimum og því hafist handa við að forrita sína eigin útgáfu.

Einar segist hvorki hafa haft reynslu né þekkingu af leikjavélum en hann hafi einfaldlega viljað setja leikinn inn á vefsíðu og þannig gera sjálfum sér og öðrum kleift að spila spilið á netinu. Einar lýsir sjálfur útliti frumraunarinnar sem ljótu, en þrátt fyrir það skemmti hann sér konunglega við gerð leiksins. „Þar sem engin önnur útgáfa af skítakalli var aðgengileg á internetinu fóru fljótlega nokkrir notendur að spila leikinn."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Íslenskur áfengisframleiðandi hefur sett á markað skoskt viskí. Framleiðsluferlið var mikið þolinmæðisverk.
  • Röskun á flutningamarkaði hefur haft í för með sér áhyggjur af afhendingu á jólavarningi, að sögn framkvæmdastjóra SVÞ.
  • Raunfærnimat hefur gefið góða raun hjá stórfyrirtæki á íslenskum veitingamarkaði.
  • Fjallað er um aflandsfélög á lágskattasvæðum.
  • Sagt er frá niðurstöðu í áralangri deilu um sölu ALMC á LS Retail.
  • Ríkið hefur lotið í gras í stórum hluta hrunmála sem ratað hafa til Mannréttindadómstólsins.
  • Rætt er við Anítu Rut Hilmarsdóttur sem nýlega ráðin til eignastýringar Fossa markaða.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um fjallar um áfengissölu og hagsmunagæslu.
  • Sérblað um Viðskiptablaðsins og Keldunnar um Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri fylgir Viðskiptablaðinu.