Íslendingar telja starfsemi utanríkisþjónustunnar nauðsynlega og telja að aðstoð við Íslendinga erlendis, gerð fríverslunarsamninga, evrópusamstarf, menningarkynning og norðurslóðasamstarf eigi að vera megináherslur í starfi hennar. Þetta er á meðal niðurstaðna könnunar sem utanríkisráðuneytið hefur látið gera um viðhorf og þekkingu á starfsemi þess. Vísað er til könnunarinnar í frétt á vef ráðuneytisins.

Í könnuninni kemur fram að rétt um 60% telja sig vita lítið um utanríkisþjónustuna. Um helmingur svarenda nefnir sendiráð og um 30% alþjóðasamskipti þegar spurt er hvað komi fyrst upp í hugann þegar rætt er um utanríkisþjónustuna. Fylgni er á milli þeirra þátta sem svarendur telja megináherslur starfseminnar og eigi að vera megináherslur.  Rétt um 70% telja utanríkisþjónustuna nauðsynlega og um 37% treysta henni vel til að gæta hagsmuna Íslendinga erlendis. Hún þykir hins vegar ekkert sérlega opin og gagnsæ. Aðeins um 8% telja hana opna og gagnsæja og 12% telja hana vera nútímalega.

Þetta er fyrsta sinn sem gerð er könnun á viðhorfi almennings til utanríkisþjónustunnar. Könnunin var gerð á vegum MMR í desember og var svarfjöldi rétt tæplega 1000 einstaklingar.