Gylfi Arnbjörnsson, forset ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forset ASÍ.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að sambandið hafi lagt mikla áherslu á við stjórnvöld að þrátt fyrir erfiða stöðu ríkissjóðs sé brýnasta verkefnið að halda atvinnustiginu uppi. Með því að fólk héldi vinnunni væru líkur á persónulegu efnahagshruni takmarkaðar þó efnahagslíf þjóðarinnar væri í lægð.

„ASÍ hefur komið fram með ýmsar hugmyndir í þessu sambandi. Ein var að fá lífeyrissjóði til að fjármagna samfélagslega mikilvægar og hagkvæmar framkvæmdir þar sem litið yrði til óhefðbundinna fjármögnunarleiða sem ekki myndu íþyngja ríkissjóði. Það voru mikil vonbrigði að stjórnarflokkarnir skyldu nálgast hugmyndir um einkaframkvæmdir með gamaldags viðhorfum. Afleiðingin er sú að mun minna hefur orðið úr framkvæmdum t.d. í vega- og jarðgangnagerð en vonir okkar stóðu til," skrifar Gylfi í 1. maí ávarpi sínu.

Mál þynnast út í bakherbergjum

„Tillaga stjórnarflokkanna að Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða er sama merki brennd," segir Gylfi einnig.  „Hún er forsenda fyrir því að hægt sé að gera áætlanir um uppbyggingu orkufrekrar en umhverfisvænnar atvinnustarfssemi. Eftir að mikil og góð vinna hafði verið lögð í verkið var dapurlegt að sjá málið þynnast út í bakherbergjum stjórnarflokkanna með niðurstöðu sem er ekki í samræmi við þá faglegu vinnu sem áður hafði verið unnin."