*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 7. júní 2020 13:09

Niðursuðusúpur vinsælar á ný

Neytendur sækjast aftur eftir niðursuðuvörum og frosnum matvælum vegna heimsfaraldursins.

Ritstjórn
‚Campbell's Soup Cans‘ listaverkið eftir Andy Warhol.
epa

COViD-19 faraldurinn hefur orðið til þess að fólk er á ný farið að fylla matarbúr sín af Campbell‘s súpum, en umrætt fyrirtæki framleiðir súpur sem seldar eru í niðursuðudósum. Á árum áður nutu Campbell‘s súpurnar mikilla vinsælda en á síðustu árum hafa vinsældirnar dalað. Nú virðist súpuframleiðandinn vera að ná sér á strik á ný. 

Á síðasta fjórðungi fjárhagsársins 2020, sem nær frá byrjun febrúar og út apríl, nam sala fyrirtækisins um 2,24 milljarða dollara eða um 296 milljarða íslenskra króna. Það er um 15% aukning frá sama tímabili í fyrra og jafnframt mesta aukning á ársfjórðungi á síðustu 30 árum. 

Sala Campbell súpanna jókst um 42% á fjögurra vikna tímabili sem lauk þann 19. apríl síðastliðinn samanborið við sama tímabil í fyrra. Einnig jókst sala á Pepperidge Farm smákökunum þeirra um 28% og sala á Prego sósunum um 49% ef horft er til sama tímabils. 

Á síðustu mánuðum átti Campbell stundum erfitt með að mæta eftirspurn. Fyrirtækið náði til að mynda ekki að framleiða nógu mikið af Pepperidge Farm gullfiska kexinu og kláruðust allar birgðir. 

„Það sem er gamalt er orðið nýtt aftur,“ er haft eftir Mark Clouse, forstjóra Campbell, í frétt WSJ. 

Undir stjórn hans hefur Campbell einblínt á að gera súpuna bragðbetri, meira seðjandi og með áherslu á einfaldari hráefni. Einnig hefur beinaseyði verið bætt út í súpuna og pakkningum breytt til að auðvelda upphitun og neyslu. Fyrirtækið hefur lagt í auknar markaðsherferðir á samfélagsmiðlum til þess að neytendur átti sig á breytingunum.