Stjórnendur Vélasviðs HEKLU afhentu á dögunum fyrsta CATERPILLAR 160M veghefilinn sem seldur er hér á landi og markar í raun algjör tímamót. „Þessi nýja gerð veghefla hefur vakið mikla athygli vinnuvélaeigenda og nú þegar liggja fyrir nokkrar pantanir á tækjum sem við munum afhenda á næstu mánuðum,“ segir Ásmundur Jónsson framkvæmdastjóri Vélasviðsins.

Þessir nýju vegheflar marka kaflaskil í ýmsu tilliti, til dæmis hvað varðar aðbúnað stjórnanda. Fjórtán stjórnstöngum og stýrishjóli hefur verið skipt út fyrir tvo stýripinna sem þýðir nærri því helmingi færri hreyfingar fyrir hefilstjórann. Hönnun á húsi hefilsins svipar til hönnunar á stýrishúsi jarðýtna. Það mjókkar fram og veitir því mjög góða yfirsýn á tannarbúnaðinn. Þá eru heflarnir með með GPS kerfi frá Caterpillar og Trimble, sem gerir vegheflistjóranum kleift að vinna af mikilli nákvæmni þegar rétta þarf af ákveðna fleti samkvæmt fyrirfram gefnum hæðarpunktum, til dæmis fyrir malbikun. Hægt er að tengja ýmis fleiri tæki við veghefilinn og eru nýtingarmöguleikar þessara kerfa óendanlega miklir.

„Þetta er framtíðin í vélavinnunni,“ segir Vilmundur Theódórsson sölustjóri hjá Vélasviði HEKLU. „GPS tæknin ryður sér æ frekari til rúms í vélavinnu hér á landi eins og annars staðar. Þetta er í raun sjálfstýring þar sem vélamennirnir á tækjunum fylgja meira og minna fyrirfram gefnum og forrituðum línum frá verkfræðingum og öðrum slíkum. Við Íslendingar erum leiðandi í þessari tæknibyltinu og forysta okkar á þessu sviði hefur vakið athygli víða.“

Fyrsti CATERPILLAR 160M veghefilinn var seldur til Afréttingar og heflunar ehf. á Álftanesi. „Þetta er frábært tæki og margfalt meðfærilegra en þeir heflar sem maður hefur kynnst til þessa,“ segir Guðmundur Böðvarsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins. „Stjórnborðið er einfalt og með GPS tækninni geta menn stillt sig mjög nákvæmlega af. Bergmálsmælingar bjóða einnig upp á mikla möguleika. Nú þarf til dæmis ekki lengur að setja út hæðapunkta eins og áður, heldur geta menn unnið hlutina eftir teikningum í tölvu í tækinu sjálfu, þar sem allt verkið er reiknað mjög nákvæmlega út. Mér finnst gaman að vera með svona tæki í höndunum á sama hátt og öll jarðvinna er ákaflega skemmtileg. Mér finnst gaman að skapa, að sjá hluti verða til og skilja eitthvað eftir mig,“ segir Guðmundur Böðvarsson.