Harpa Groiss er framkvæmdastjóri Activity Iceland. Ferðaþjónustufyrirtækið festi nýverið kaup á flottum Mercedes-Benz Sprinter bíl sem var settur í sérstaka yfirhalningu hjá Arctic Trucks.

Það þarf góða bíla í rekstur eins og hjá okkur. Þegar keyptur er bíll er mikilvægt að huga vel að því hvaða bíll er keyptur og ekki síður hver sér um að breyta honum. Við þurfum að geta farið upp á hálendið og jöklana með ferðamenn og því er mjög mikilvægt að bíllinn sé búinn undir slíkar torfærur. Við keyptum þennan nýja og flotta Mercedes-Benz Sprinter hjá Bílaumboðinu Öskju á dögunum og erum afar ánægð með hann. Hann tekur 17 farþega. Bíllinn fór síðan í breytingu hjá Arctic Trucks þar sem sett voru undir hann 46 tommu hjól. Það var einnig sett í hann lágt drif og ýmiss konar aukabúnaður sem gerir bílinn mjög veglegan og vandaðan. Það er nauðsynlegt að hafa vel búinn bíl þegar ferðast er með ferðamenn langar vegalengdir. Það er fátt skemmtilegra en að þvælast um landið á góðum bíl,“ segir Harpa.

Hún bætir við að fyrirtækið sé með fleiri bíla en þetta sé fyrsti Mercedes-Sprinter bíllinn sem það eignast. „Okkur líst mjög vel á Sprinterinn. Hann er eiginlega bara draumur í dós. Hann kemur til með að nýtast í fjölmörgum ferðum sem fyrirhugaðar eru í framtíðinni.“

Dagsferðir vinsælastar meðal ferðamanna

Activity Iceland var stofnað fyrir um ári og er í eigu Hörpu, Haraldar Grétarssonar Bender og Guðjóns Hasler en ásamt þeim þremur starfar Eydís Sigurðarsdóttir hjá fyrirtækinu.

„Við bjóðum upp á mjög fjölbreyttar ferðir hingað og þangað um landið. Það er búið að vera mjög mikið að gera hjá okkur á þessum rúmum 12 mánuðum sem við höfum verið í rekstrinum. Erlendir ferðamenn eru langstærsti kúnnahópurinn sem það kemur auð- vitað fyrir líka að Íslendingar nýti sér þjónustu okkar. Dagsferðirnar eru vinsælastar og þá aðallega Gullni hringurinn en síðan erum við með ferðir upp á hálendið og jöklana. Þórsmörk og Eyjafjallajökull eru einnig vinsælir áfangastaðir,“ segir Harpa.

Vetrarferðamennska að aukast

Hún segir að ferðamennskan sé að færast mjög mikið yfir á veturinn líka og þau finni fyrir því. ,,Jólin og áramótin voru t.d. mjög vinsæl hjá ferðamönnum og það má segja að við, eins og fjölmargir sem starfa í ferðageiranum, eigum yfirleitt mjög stutt jól. Það er rétt að liðið nái jólamatnum á aðfangadagskvöld og opni nokkra pakka áður en farið snemma í háttinn því það þarf að fara í ferð snemma að morgni jóladags. Það þarf að fórna sér í þessa vinnu ef maður er í þessu á annað borð. Þetta er ekki mjög fjölskylduvænn bransi og það er kannski þess vegna sem ég er í þessu því ég er ekki með neina fjölskyldu, alla vega sem stendur. Það er samt einn í prufukeyrslu,“ segir Harpa og hlær.

Nánar er rætt við Hörpu í Atvinnubílar , fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu hér .