„Það er virkilega gaman að vera fasteignasali þessa dagana, sérstaklega fyrir mig sem starfaði lengi í verktakabransanum. Það er svo mikið framboð á skemmtilegum og glæsilegum nýbyggingum sem gaman er að selja,“ segir Þórunn Pálsdóttir, fasteignasali hjá Mikluborg og verkfræðingur, í samtali við Viðskiptablaðið, en hún verður með erindi á upplýsingafundi Almenna lífeyrissjóðsins á morgun í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur.

Þórunn segir mörg svæði sem nú eru í uppbyggingu gefa góð fyrirheit um framhaldið. „Uppbyggingin á Kirkjusandi er til dæmis mjög spennandi og ég er mjög hrifin af hugmyndinni um að hafa nánast alla bílaumferð á svæðinu neðanjarðar. Þetta er frábær staðsetning og svæðið verður mjög vistvænt og skemmtilegt. Síðan hefur salan á Hlíðarenda farið mjög vel af stað og nýtt huggulegt hverfi í 201 Smára er að taka á sig mynd.

Loks er miðborgin að verða flottari en nokkru sinni með metnaðarfullum glæsiíbúðum við Austurhöfn og þá er Hverfisgatan að verða ein eftirsóknarverðasta gatan í borginni, og svo mætti lengi telja þannig að það er sjaldan dauður tími,“ segir Þórunn.

Þórunn verður eins og áður sagði með erindi á opnum upplýsingafundi sem Almenni lífeyrissjóðurinn heldur undir yfirskriftinni Þak yfir höfuðið á morgun. „Ég ætla í erindi mínu að vera með fróðleik og praktískar upplýsingar fyrir fyrstu kaupendur. Hvernig er ferlið frá kauptilboði til afsals og að hverju þarf að huga.“ segir Þórunn sem ætlar að svara spurningum eins og hvað þurfi í huga við mat á kostum og göllum við kaup á nýju og notuðu notuðu húsnæði. Hvað eiga t.d. kaupendur að horfa á þegar eldri fasteign er skoðuð til að átta sig á hvaða viðhald gæti verið í pípunum?

„Það eru oft margir um hituna þegar góðar litlar íbúðir koma á markaðinn og þá getur skipt sköpum að vera búin að vinna heimavinnuna og vera með nýlegt greiðslumat,“ segir Þórunn sem segist hitta mun fleiri fyrstu kaupendur í starfi sínu í dag en fyrir nokkrum árum.

„Hlutfall fyrstu kaupenda hefur hækkað jafnt og þétt frá árinu 2010 þegar það var 10% en var komið upp í 28% á 2. ársfjórðungi 2019, sem bendir til þess að það að minnsta kosti ekki erfiðara en oft áður að komast inn á íbúðamarkaðinn,” segir Þórunn Pálsdóttir að lokum.