*

laugardagur, 4. apríl 2020
Fólk 9. febrúar 2020 19:01

„Gaman að vinna hjá flugfélagi“

Snorri Pétur Eggertsson, nýr framkvæmdastjóri hjá KEA hótelunum, hefur unnið hjá mörgum flugfélögum, nú síðast Wow.

Höskuldur Marselíusarson
Nýr framkvæmdastjóri hjá KEA hótelunum hefur ítrekað leitað í að vinna í fluggeiranum, og sér eftir Wow air, en hann var um tíma í undirbúningshópi nýs félags. Hann á sinn griðastað í eyju í Breiðafirðinum.
Aðsend mynd

„Þetta er víðtækt svið sem ég er að taka við, sölu- og markaðsmál og tekjustýring, og svo er ég einnig að innleiða ný kerfi, en á móti kemur að þetta er lítil skrifstofa, svona miðað við reksturinn á öllum KEA hótelunum,“ segir Snorri Pétur Eggertsson sem er nýr í framkvæmdastjórn KEA hótelanna.

„Mitt hlutverk verður að viðhalda því sem gert hefur verið vel í söluog markaðsmálum hótelanna en mestu tækifærin okkar felast í nýjum hótel-, sölu- og tekjustýringarkerfum. Verður það helsta verkefnið mitt, en jafnframt erum við að einblína á að auka fjölda bókana á okkar eigin vef, þar sem kostnaðurinn við bókunarsíðurnar er of íþyngjandi, þó þær geri margt gott í markaðsstarfi.“

Snorri Pétur starfaði í fimm ár hjá Wow air, og var framan af í hópnum sem hugðist reisa nýtt félag á þekkingargrunni þess.

„Það var svo sorglegt að ekki var hægt að loka fjármögnun Wow því undir lokin var undirliggjandi rekstur félagsins kominn í gott horf, og við komin í 94% nýtingu flugsæta í mars. Eftir það fórum við sjö saman, gamla framkvæmdastjórnin, að reyna að búa til nýtt flugfélag en svo kvarnaðist úr hópnum, vorum kannski ekki öll sammála um leiðir. Í júní þá dró ég mig út úr hópnum ásamt fleirum,“ segir Snorri Pétur sem hefur margra ára reynslu af flugrekstri.

„Þó það sé hrikalega mikil vinna og kaótískt umhverfi þá er svo gaman að vinna hjá flugfélagi að ég hef leitað aftur og aftur í það. Ég er rafmagnsverkfræðingur og byrjaði á sínum tíma hjá Íslandssíma sem var seinna sameinaður Tal og varð að Vodafone, en svo vildi ég prófa eitthvað nýtt og byrjaði hjá Iceland Express, sem var lítið fyrirtæki á þeim tíma. Síðar koma Pálmi Haraldsson og Alvar Örn inn í félagið og sömu fjárfestar kaupa Sterling Airlines ári seinna og ég er fenginn til að vera tekjustjóri hjá því félagi úti í Danmörku. Fór ég þá úr því að vera með 2 vélar í 26, sem var mikill lærdómur.“

Næstu árin eftir það vann Snorri Pétur við ýmis ferðaþjónustu-, gagna- og tekjustýringarverkefni. Snorri Pétur á fjögur börn á aldrinum 8 til 17 ára, með konu sinni, Svövu Maríu Þórðardóttur tónmenntakennara.

„Við eigum gamalt hús í Vesturbænum sem mikill tími okkar fer í að byggja og breyta. Svo á stórfjölskyldan næststærstu eyjuna í Breiðafirði, Fremri-Langey, þar sem við sinnum æðavarpi á sumrin. Það er mjög gott að komast úr skrifstofuvinnu í svona líkamlega vinnu, sumir fara í útivist eins og klífa fjöll og svoleiðis en ég fer út í eyju. Ég myndi alls ekki tíma að missa þann griðastað úr tilverunni.“