„Það eru komnir einhverjir tuttugu starfsmenn norður sem vinna við leikmyndina. Þeir hafa verið þar í viku. Við förum norður eftir helgi,“ segir Snorri Þórisson, framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Pegasus, í samtali við vb.is. Pegasus vinnur með bandarísku kvikmyndatökuliði og leikurum við tökur á þriðju þáttaröð miðaldafantasíunnar Game of Thrones fyrir sjónvarpsstöðina HBO. Rúmlega 10 milljón sjónvarpsáhorfendur hafa fylgst með hverju þætti Game of Thrones og er hún orðin sú þriðja vinsælasta í sögu stöðvarinnar.

Tökur hefjast á hluta þáttanna hér á landi innan skamms og munu þær standa yfir næstu vikurnar. Þegar mest lætur munu um 300 manns koma að gerð þáttanna hér. Um 80 til 90 manns koma að utan og munu um 200 Íslendingar koma að gerð þeirra.

Fleiri koma að gerð þáttanna en Pegasus því TVG-Zimsen flytur kvikmyndabúnað, hlutaleikmyndar, búninga og fleiri leikmuni fyrir tökurnar hér.

„Það er allt að verða komið á staðinn og klárt fyrir tökur,“ er haft eftir Birni Einarssyni, framkvæmdastjóra TVG-Zimsen, í tilkynningu frá fyrirtækinu í tengslum við málið.

Þau atriði sem verða tekin upp fyrir þættina hér á landi verða tekin upp í kringum Mývatn. Atriði sem voru tekin upp fyrir aðra seríu þáttanna í fyrrahaust voru við rætur Vatnajökuls. Álíka margir komu að tökunum þá og nú. Talið er að kostnaður við framleiðsluna hér í fyrra hafi numið rúmlega 200 milljónum króna.