Tíu ára strákur í Texas seldi hlutabréf í tölvuverslunarkeðjunni Gamestop með yfir 400 þúsund króna hagnaði á miðvikudag, sem keypt höfðu verið árið 2019 á um 8 þúsund krónur.

Jaydyn Carr fékk alls 10 hlutabréf í fyrirtækinu í Kwanzaa-gjöf frá móður sinni fyrir rétt rúmlega ári síðan, sem hún hafði keypt á 6 dali á hlut.

Í samtali við fréttamiðilinn New York Post segir Nina Carr, móðir drengsins, að síminn hennar hafi ekki látið hana í friði þegar bréf Gamestop fóru á flug, þar sem hún sé með virka vöktun á fréttum um félagið.

Mæðginin brugðust hratt við þegar þau áttuðu sig á stöðunni sem upp var komin, og eftir að móðirin útskýrði fyrir syni sínum að þetta væru afar óvanalegar aðstæður og spurði hvað hann vildi gera, tók hann ákvörðun um að selja.

Jaydyn ráðgerir að endurfjárfesta þúsund dölum, hugsanlega í öðru tölvuleikjatengdu félagi, Roblox, og leggja restina inn á sparnaðarreikning. Móðir hans segist leggja áherslu á að hann kynni sér félögin sem hann fjárfestir í áður en ákvörðunin er tekin.