Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar segir vont að ekki hafi tekist að mynda stjórn þeirra fimm flokka sem nýverið slutu stjórnarmyndunarviðræðum og að hugmyndin hafi verið góð.

„Það er ansi mikið verið að berjast um hver á vera Svarti Péturinn í þessu síðasta spili,“ segir Björt á facebook síðu sína.

„Svo má fólk bara kenna þeim um sem það vill. Það má hins vegar gera ráð fyrir því að margir leikir hafi verið spilaðir á sama tíma. Æ hvað þessi gamla afturhaldspólítík er leiðinleg. Og bara vond fyrir allt og allt.“

Aðrir skilgreina flokkinn eftir eigin hagsmunum

Jafnframt segir Björt sem sitja mun á komandi þingi fyrir flokkinn Björt framtíð, að það hafi verið vont að ekki hafi tekist að styðja trausta konu til góðra verka, og vísar þá væntanlega til Katrínar Jakobsdóttur.

„Ég var sjálf á tíma ekki alveg viss hvort að vinstri vængurinn sannarlega vildi þetta. En trúði og vonaði,“ segir Björt sem svarar einum sem skrifar við færslu hennar um hvort ekki sé kominn tími til að skera á línuna til Viðreisnar og ganga til viðræðna á eigin forsendum næst.

„Þessi lína er ekkert meginmarkmið. En hún er á þeim stað sem við í BF skilgreinum okkur sjálf. Svo eru aftur margir aðrir sem að skilgreina okkur einhvernvegin öðruvísi, og vilja staðsetja okkur annarstaðar. En það er nú bara vegna þeirra eigin hagsmuna, þeirra eigin stefnu, en ekki okkar.“