Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi hefur falið Croisette Real Estate Partner á Íslandi að selja gamla sendiráðið í Þingholtunum, sögufrægar byggingar sem hýst hafa sendiráðsstarfsemina síðan á fimmta áratug síðustu aldar og þar til sendiráðið flutti sig um set í Engjateiginn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Croisette.

Um er að ræða fjórar lóðir við Laufásveg 19-23 og Þingholtsstræti 34 sem hýst hafa bæði íbúðarhúsnæði og skrifstofur. Beinir  Croisette í söluferlinu sjónum sínum fyrst og fremst til byggingaraðila og fjárfesta. Samanlögð stærð bygginganna á lóðunum fjórum er ríflega 2 þúsund fermetrar og samanlagt fasteignamat þeirra er ríflega 550 milljónir króna. Croisette óskar eftir tilboðum í eignirnar.

Croisette er fyrsta alþjóðlega fasteignaráðgjafafyrirtækið á Íslandi en fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi skömmu fyrir jól. Styrmir Bjartur Karlsson, framkvæmdastjóri Croisette á Íslandi, segir verkefnið bæði skemmtilegt og spennandi og að reiturinn feli í sér mikla möguleika fyrir bæði verktaka og fjárfesta.

„Við erum gríðarlega stolt af því að vera valin að vinna fyrir bandaríska ríkið með að aðstoða þá í að selja gamla sendiráðið í Þingholtunum. Sýnir fram á mikilvægi alþjóðlegs tengslanets og hvað upplýsingagjöf til erlendra kúnna er mikilvægur þáttur í að auka gegnsæi á íslenskum fasteignamarkaði," segir Styrmir, í tilkynningunni.

Per Svensson, stofnandi og forstjóri Croisette, segir það gríðarlegan heiður að geta nú talið bandaríska ríkið til viðskiptavina fyrirtækisins. „Það staðfestir ekki einungis að ákvörðunin að hefja starfsemi á Íslandi hafi verið rétt skref fyrir okkur heldur einnig mikilvægi þess fyrir vörumerki okkar á alþjóðlegum vettvangi. Við hlökkum til að fá fleiri verkefni af þessum toga á næstunni, ekki eingöngu frá bandarískum stjórnvöldum," segir Per Svensson, í tilkynningunni.