*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 8. mars 2021 14:29

Gamla Eimskip tekið til skipta

Viðbúið er að stærsta krafan í þrotabúið verði rúmir tíu milljarðar frá ríkissjóði vegna endurákvarðaðra skatta.

Jóhann Óli Eiðsson
Aðsend mynd

Bú A1988 hf., einnig þekkt sem Gamla-Eimskip, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Auglýsing þess efnis var birt í Lögbirtingablaðinu í dag. Frestsdagur er 19. febrúar síðastliðinn og kröfulýsingafrestur er til 21. maí næstkomandi. Garðar Þ. Garðarsson er skiptastjóri búsins. Stærsta krafan á félagið er skattkrafa ríkisins en sú, auk áfallinna vaxta, nam rúmlega 10 milljörðum króna haustið 2019.

Gamla-Eimskip var eitt þeirra fjölmörgu félaga sem fór illa út úr efnahagshruninu en í júlí 2009 fékk félagið heimild til að leita nauðasamninga. Voru þeir samþykktir á kröfuhafafundi mánuði síðar og samningurinn staðfestur af héraðsdómi þann 28. ágúst 2009. Samkvæmt þeim fengu kröfuhafar 11,9% krafna sinna greiddar með hlutum í Nýja Eimskip.

Frá þeim tíma hafa mál sem varða gamla félagið nokkrum sinnum til kasta dómstóla. Með tveimur dómum Hæstaréttar í janúar 2016 var annars vegar komist að þeirri niðurstöðu að eftirgjöf skulda samkvæmt nauðasamningunum, alls tæplega 91 milljarður króna, teldist til skattskylda tekna. Hins vegar hafði félagið fært 55 milljarða króna niðurfelldar skuldir til frádráttar á móti fjárfestingu. Taldi rétturinn að umrædd eftirgjöf hefði ekki komið til vegna fjárfestingar, framleiðslu eða endurbóta eigna. Af þeim sökum væri frádráttarheimild ekki til staðar.

Niðurstaðan þýddi að skattskuld félagsins auk áfallinna vaxta nam rúmlega 10 milljörðum króna í árslok 2019. Ársreikningur fyrir árið 2020 liggur ekki fyrir og mun tæpast gera það úr þessu. Samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins voru eignir metnar á 292 þúsund evrur, skuldir 74 milljónir evra og eigið fé var neikvætt um 73,7 milljónir evra.

Skilaði síðustu hlutunum í fyrra

Með dómi Landsréttar í desember 2019 var félagið dæmt til að greiða Samskipum 98 milljónir króna vegna tjóns sem síðarnefnda félagið varð fyrir vegna samkeppnislagabrota árin 2003-2006. Áður hafði A1988 verið dæmt til greiðslu 230 milljón króna stjórnvaldssektar vegna brotanna.

Í nóvember á síðasta ári komst Landsréttur síðan að þeirri niðurstöðu að fyrrnefndur nauðasamningur stæði því í vegi að dæmd fjárhæð yrði greidd í topp. Samskip hafði farið fram á það að fá vexti og dráttarvexti af dæmdum höfuðstól og farið fram á fjárnám fyrir því. Landsréttur taldi aftur á móti að 14,4 milljón króna greiðsla, í formi hlutabréfa í Eimskip, hefði verið fullnægjandi og að vextir féllu ekki á höfuðstólinn.

Samkvæmt ársreikningi A1988 fyrir árið 2019 – sá telur 238 síður en þar af er skrá yfir hluthafa á 229 síðum – átti félagið milljón hluti í Eimskip í upphafi rekstrarársins. Í apríl 2020, eftir að greiðslan til Samskipa átti sér stað, var 904 þúsund hlutum skilað til Eimskipa en eftir það átti félagið enga hluti í nýja Eimskip.

Stikkorð: Eimskip Samskip A1988