igþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hlaðbæjar Colas og formaður Mannvirkis, verður, líkt og aðrir, var við mikinn vöxt í byggingar- og verktakageiranum. Hann segir yfirvofandi ríkisframkvæmdir nokkurt áhyggjuefni enda komi þær til með að auka þenslu sem nú þegar er mikil. „Við hjá Hlaðbæ Colas höfum fundið fyrir miklum vexti í ár og fyrra þvert á árin þar á undan sem voru auðvitað kreppuár. Árin 2009 til 2012 voru mjög döpur ár í framkvæmdum en svo fór landið að rísa og þá sérstaklega í fyrra og í ár. Það hefur verið mikill vöxtur,“ segir Sigþór.

Þensla og skortur á vinnuafli

Sigþór segir það svolítið erfitt að meta það út frá Hlaðbæ hvort vöxturinn í greininni sé óeðlilega hraður. „Við fengum óeðlilega stórt verkefni upp í hendurnar fyrir nokkru, þ.e. malbikun Keflavíkurflugvallar sem við munum sinna næstu tvö árin. Framkvæmdin er hrein viðbót við ákveðinn hóflegri vöxt. Vegna þessa má segja að það sé mikil þensla innan okkar fyrirtækis sem er aðallega tilkomin út af þessu stóra verkefni, en það er algerlega afmarkað til tveggja ára.

En svo fylgist maður náttúrlega með umhverfinu og heyrir umræðuna og það er ljóst að það er mjög mikil þensla í byggingargeiranum og skortur á vinnuafli. Það er í raun svolítið áhyggjuefni hvað það er mikið fram undan miðað við hvernig staðan er orðin hjá flestum þeim fyrirtækjum sem ég þekki til sér í lagi ef ríkið ætlar sér nú loksins að spýta í lófana og auka um leið þensluna.

Mannvirki talaði mikið fyrir því að ríkið myndi ráðast í framkvæmdir á árunum 2009-2012. Félagið hvatti til að mynda til þess að hafist yrði handa við spítalann til dæmis með lánsfé frá lífeyrissjóðunum en það var ekki gert. Það magnaði smátt og smátt pressuna á því að ráðist yrði í innviðafjárfestingar á borð við vegagerð og byggingu spítala. Núna hefur vegaáætlun loksins verið birt og þar eru áætlanir um mikla innspýtingu enda þörfin orðin mikil. Framhaldið verður í anda gömlu góðu íslensku hagstjórnarinnar. Ríkisframkvæmdirnar koma ofan í þensluna sem nú þegar er komin af stað á vegum einkageirans.“ útskýrir Sigþór.

Það kemur önnur niðursveifla

Hafið þið hjá Hlaðbæ fundið fyrir skorti á vinnuafli?

„Við erum nægilega mönnuð í ár en sjáum fram á að þurfa að bæta við 10-20 manns til viðbótar á næsta ári. Þar á meðal eru tækjastjórnendur og meiraprófsbílstjórarog þá er ekki að finna lengur á lausu á Íslandi.“

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Orka og Iðnaður sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.