Katrín Pétursdóttir hefur verið forstjóri Lýsis frá árinu 1999 en hefur jafnframt verið viðloðandi fyrirtækið frá barnæsku. Afi hennar, Tryggvi Ólafsson, stofnaði fyrirtækið árið 1938 eftir að hafa borist skeyti frá E. C. Wise hjá lyfjafyrirtækinu Upjohn í Michigan í Bandaríkjunum. Í skeytinu örlagaríka var leitast eftir því hvort hann gæti útvegað þorskalýsi.

Í viðtali við Viðskiptablaðið síðastliðinn fimmtudag fór Katrín um víðan völl og ræddi m.a. stöðu þorskalýsisins á heilsuvörumarkaði þar sem tískustraumar ráða miklu um sölu hverju sinni.

Það má segja að þið starfið á markaði með fæðubótarefni og heilsuvörur sem hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár. Hefur Lýsi hf. fundið fyrir aukinni samkeppni í kjölfarið?

„Ég er búin að fylgjast með þróuninni undanfarin ár og þessi markaður er hreinlega orðinn að algerum frumskógi. Á móti kemur þó að lýsi og Omega3 er mest rannsakaða fæðubótaefni í heimi og jafnframt mest selda fæðubótaefni í heimi. Ég held að við séum ekki beinlínis í samkeppni við vítamín eða steinefni eða gerlavörur og annað slíkt. Fyrst og fremst erum við að koma ágæti vörunnar á framfæri, þeim grunni sem Omega3 styður við líkamann. Það er nefnilega ekki nema þú borðir þrjár til fjórar feitfiskimáltíðir í viku sem þú getur sinnt þessari þörf líkamans. Og það er enginn sem gerir það, ég skal lofa þér því. Lýsi mun alltaf standa fyrir sínu. Þetta er eitthvað sem líkamanum er nauðsynlegt, bæði hjarta og æðakerfi og ekki síður fyrir heila. Ég held hreinlega að lýsi sé ástæðan fyrir því að Íslendingar séu svona glaðir og kátir og bjartsýnir. Þetta er allt í lýsinu,“ segir Katrín og hlær

Gamla lýsið alltaf stjarnan

Nú er þessi heilsuvörumarkaður þekktur fyrir miklar tískusveiflur, telur þú að lýsið sé undanskilið slíkum tískustraumum?

„Jú, það er rétt, það eru tískubylgjur á þessum markaði jafnt hérlendis sem erlendis og nú virðist til dæmis vera mikið í tísku að borða söl (e. seeweed) sem flokkast sem ofurfæða. Það er samt ekki þar fyrir að það uppfyllir ekki þá þörf sem lýsið uppfyllir. Saman getur það verið mjög fínt en eitt og sér uppfyllir það ekki þarfir líkamans gagnvart Omega3. Þú þarft alltaf að bæta þér það upp, hvernig sem þú gerir það. Þú getur verið í einverju samsulli eða þú getur keypt þér lýsi sem grunnvöru og bætt svo tískunni við. En ég held þú getir aldrei bætt líkamanum þörf hans á Omega3 með öðrum hætti en með lýsistöku. Við erum engu að síður alltaf að hlusta á markaðinn. Við erum með rannsóknar- og þróunardeild hér innanhúss sem rannsakar og þróar vörur annars vegar en sér um vinnsluferlið hins vegar. Í raun og veru erum við í mörgum tilfellum að vinna að nýjum vörum sem viðkomandi markaðir kalla eftir hverju sinni.“

„Við vinnum til dæmis mjög náið með Finnum. Finnski umboðsmaðurinn okkar kemur gjarnan með ósk um einhverja samsetningu á vöru og núna síðast vorum við að þróa í samstarfi við hann nokkurs konar augnvöru. Þetta er eðli málsins samkvæmt mjög gott, því þó svo að þetta sé þróað fyrir finnska markaðinn þá er það boðið umboðsmönnum okkar um allan heim. Þá eru sumir sem segja „já, þetta passar inn á minn markað“ á meðan aðrir segja „nei, þetta mun aldrei ganga hér.“ Það eru þannig líka fullt af vörum sem hafa verið þróaðar fyrir erlenda markaði en eru ekki seldar hér heima.“ Hver er markaðshlutdeild upprunalega lýsisins við hliðina á öllum þessum aukavörum sem þið framleiðið? „Gamla góða þorskalýsið er allaf stjarnan. Auðvitað eru vörur eins og sportþrennan og heilsutvennan sem hafa tekið svaka flug en þorskalýsið er alltaf í fyrsta sæti og ég er mjög ánægð með það. Inntaka lýsis er það besta sem þú gerir fyrir sjálfan þig og svo er þetta jafnframt ódýrasta heilsuvaran sem þú færð á markaðnum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.