Gamli Byr, áður Byr Sparisjóður, greiddi fyrr á þessu ári út meginþorra eigna sinna til eigenda skuldaviðurkenninga en eignir félagsins námu rúmlega 8 milljörðum króna í lok síðasta árs. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins fyrir árið 2018. Voru allar eignir félagsins greiddar út, að undanskilinni fjárhæð vegna áætlaðs rekstrarkostnaðar upp á 250 milljónir, mögulegri kröfu Héðinsreits ehf. í dómsmáli upp á 235 milljónir og skaðleysissjóðs upp á rúmlega 274 milljónir.

Fyrrnefnd greiðsla rann annars vegar til Íslandsbanka, en 975 milljónir voru greiddar til bankans sem sáttargreiðsla í deilumáli. Hins vegar rann greiðslan til eigenda skuldaviðurkenninga, að frádregnu 26% stöðugleikaframlagi til Seðlabanka Íslands. Áætlað er að síðari greiðslur upp á samtals 485 milljónir króna verði greiddar þegar varasjóður vegna fyrrnefnds dómsmáls og skaðleysissjóður losna.