Svissneski fjárfestingarbankinn UBS hefur endurráðið Sergio Ermotti sem forstjóra‏. Hann tekur við stöðunni af Ralph Hamers rúmum tveimur vikum eftir að bankinn samþykkti að kaupa Credit Suisse fyrir 3,25 milljarða dala.

Ermotti, sem var forstjóri UBS á árunum 2011-2020, tekur formlega aftur við stöðunni þann 5. apríl næstkomandi. Hamers mun starfa áfram hjá UBS sem ráðgjafi á meðan bankinn aðlagar sig að breytingum í kjölfar yfirtökunnar á Credit Suisse.

Stjórn UBS segist í tilkynningu hafa tekið ákvörðunina í ljósi nýrra áskorana og forgangsverkefna sem bankinn standur frammi eftir yfirtökuna. Stjórnin sagði Ermotti hafa tekist að leiða UBS í gegnum endurskipulagningu í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008.

Stjórnarformaður UBS, Colm Kelleher, sagði á blaðamannafundi í dag að hann hefði hringt í Ermotti strax á mánudaginn í síðustu viku, aðeins örfáum klukkutímum eftir að yfirtakan var samþykkt, til að athuga hvort hann hefði áhuga á að snúa aftur í forstjórastólinn.

Ralph Hamers, fráfarandi forstjóri UBS, Colm Kelleher stjórnarformaður og Sergio Ermotti, verðandi forstjóri, á blaðamannafundi í dag.
© epa (epa)
Ralph Hamers, Sergio Ermotti og Colm Kelleher.
© epa (epa)