Vegna breyttra aðstæðna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum á síðustu misserum hafa fjármálastofnanir heimsins í auknum mæli tryggt sér aðgengi að lausu fé með því að setja einstök lánasöfn að veði hjá seðlabönkum, meðal annars Seðlabanka Evrópu.

Hjá gamla Glitni voru þrjú slík lánasöfn sett að veði gegn lánveitingu í Seðlabanka Evrópu fyrir milligöngu Seðlabanka Lúxemborgar. Þar á meðal eru lán nokkurra íslenska fyrirtækja, m.a. sjávarútvegsfyrirtækja. Var það gert að höfðu samráði og að fengnu  samþykki viðkomandi fyrirtækja.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skilanefnd Glitnis vegna umfjöllunar um að veð vegna lána tiltekinna íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafi komist í eigu erlendra banka.

„Í kjölfar hruns á fjármálamarkaði lokaðist gjaldeyrismarkaður á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.

„Til að fyrirbyggja vanskil vegna þessa ástands var þeim tilmælum beint til viðkomandi fyrirtækja að þau greiddu beint til móttökuaðila seðlabanka Evrópu, sem er Deutche Bank. Nú hefur greiðslufyrirmælum verið komið í fyrra horf og er innheimta og forræði þessara lánasafna eftir sem áður á höndum gamla Glitnis. Áréttað skal að Deutche Bank er eingöngu milligönguaðili um greiðslu og á enga kröfu á viðkomandi fyrirtæki.“

Samningar við Evrópska Seðlabankann

Þá kemur fram í tilkynningunni að við fall íslensku bankanna hafi umrædd lánasöfn komist í uppnám þar sem Seðlabanki Evrópu öðlaðist rétt til að ganga að veðum sínum og leysa lánin til sín.

„Skilnefnd gamla Glitnis hefur á síðustu vikum unnið að samkomulegi við seðlabankann sem er nú á lokastigi. Í því felst m.a. að gamli Glitnir hefur svigrúm í  3-5 ár til þess að vinna úr þessari stöðu,“ segir í tilkynningunni.

„Á næstu árum er því mikilvægt að þau félög sem um ræðir lendi ekki í vanskilum og tryggi sér endurfjármögnun um leið og aðstæður á fjármagnsmörkuðum leyfa. Til viðbótar hefur skilanefnd Glitnis samið um að andvirði fasteignalánasafns sem er í eigu dótturfélags bankans í Lúxemborg renni til niðurgreiðslu lána hjá Seðlabanka Evrópu. Sú ráðstöfun mun flýta fyrir því að hægt verði að leysa þessi mál.“