Slitastjórn gamla Landsbankans greiddi undir lok mánaðar þeim sem eiga forgangskröfur í þrotabú bankans um 162 milljarða króna. Þetta er önnur greiðslan til kröfuhafa og nema heildargreiðslurnar 594 milljörðum króna. Þetta jafngildir 43% af kröfunum.

Staða þrotabúsins var kynnt kröfuhöfum í dag.

Þar kom m.a. fram að umtalsverður árangur hafi náðst í endurheimtum og nam raunaukningin á áætluðu verðmæti eigna milli ársfjórðunga tæplega 77 milljörðum króna. Heildaraukningin að teknu tilliti til breytinga á gengi íslensku krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðum nam um 117 milljörðum króna. Aukið verðmæti eigna skýrist að mestu leyti af sölu á bresku verslanakeðjunni Iceland Foods til Malcolm Walkers fyrir áramót.

Þá kemur fram í upplýsingum um stöðu þrotabúsins til kröfuhafa að áætlað virði eigna þrotabús Landsbankans nemi 1.450 milljörðum króna sem er 122 milljörðum krónum meira en bókuð fjárhæð forgangskrafna. Forgangskröfur eru að nær öllu leyti Icesavekröfur.