Áætlaðar endurheimtur LBI, gamla Landsbankans, eru um 208 milljörðum krónum hærri en sem nemur samþykktum forgangskröfum í slitameðferðinni. Þetta kemur fram í tilkynningu bankans. Upplýsingar um áætlað virði eignasafns LBI voru birtar á kröfuhafafundi í morgun miðað við stöðuna um áramótin.

Að meðtöldum fjórum hlutagreiðslum sem þegar hafa verið greiddar kröfurhöfum, að jafnvirði um 716 milljarðar króna, voru áætlaðar endurheimtur LBI um áramót að jafnvirði 1.534 milljarða króna. Áætlað heildarverðmæti eigna LBI hefur því hækkað um jafnvirði 434 milljarða króna frá 30. apríl 2009 til ársloka 2013.

Um 53,9% af heildarfjárhæð forgangskrafna eins og staða þeirra var í árslok hafa þegar verið greidd úr búinu. Tvær undanþágubeiðnir að jafnvirði um 265 milljarða króna eru til umfjöllunar hjá Seðlabanka Íslands sem tengjast fyrirætlunum slitastjórnar um hlutagreiðslur.