Forsvarsmenn Landsbankans segja misskilnings hafa gætt um sölu Magnúsar Kristinssonar og fjölskyldu hans á útgerðarfyrirtækinu Bergi-Huginn í Vestmannaeyjum. Bankinn segist engan hlut hafa átt í útgerðinni heldur gamli bankinn sem slitastjórn stýri.

Leitað hefur verið eftir því að gamli Landsbankinn skipti um nafn til að forðast frekari misskilning og óskað liðsinnis Fjármálaeftirlitsins í málinu. Ekki hefur tekist að fá því framfylgt, segir í tilkynningu frá Landsbankanum.

Tilkynning Landsbankans er eftirfarandi:

„Vegna misskilnings sem  skapast hefur við sölu á hlutafé í útgerðarfélaginu Bergi – Huginn ehf. í Vestmannaeyjum til Síldarvinnslunnar hf. vill Landsbankinn koma eftirfarandi á framfæri. Algengt er að Landsbankanum hf. og Landsbanka Íslands hf. sem nú er í slitameðferð hafi verið ruglað saman af hálfu þeirra sem fjallað hafa um málið. Landsbankinn hf. sem stofnaður var í október 2008 átti ekkert hlutafé í Bergi – Huginn ehf. Stór hluti þess var hins vegar í eigu Landsbanka Íslands hf. Landsbankinn hf. ræður því engu um örlög félagsins. Landsbankinn hf. hefur oftsinnis á síðustu árum óskað eftir því að Landsbanki Íslands hf. breytti nafni sínu opinberlega, þannig að forðast mætti hvimleiðan misskilning eins og þennan og m.a. óskað liðsinnis FME í því máli. Ekki hefur tekist að fá því framfylgt.