Samkomulag hefur tekist við skiptastjóra útibús Landsbanka Íslands hf. (gamla Landsbankans) í Amsterdam um fullt forræði á stjórn og eignum bankans frá og með morgundeginum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skilanefnd og Slitastjórn Landsbankans þar sem einnig kemur fram að fyrrnefndir aðilar hafi lagt mikla áherslu á að óskorað forræði yfir útibúinu.

Eignir útibúsins í Amsterdam eru útlánasafn og innheimt reiðufé. Útlánasafnið, sem samanstendur fyrst og fremst af sjóðstreymislánum („Leverage finance“), var þann 31. desember 2009 samtals 95 milljarðar króna og áætlað endurheimtuhlutfall þess um 79 milljarðar króna, eða um 83%.

Reiðufé nam þann 31. desember 2009 samtals 22 milljörðum króna og samtals námu því áætlaðar eignir um sl. áramót um 101 milljarði króna.

Fram kemur í tilkynningunni að í áætlunum sem birtar hafa verið hefur LBI hf. gert ráð fyrir þessum endurheimtum. Starfsemi útibúsins hefur verið flutt í minna og ódýrara húsnæði og starfsmenn þess eru nú þrír. Rekstrarkostnaði verður haldið í lágmarki, m.a. munu stoðdeildir bankans í Reykjavík sinna bakvinnslu útlána og bókhaldi.

Þá kemur fram að strax í kjölfar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins þann 7. október 2008 um að skipa Landsbanka Íslands hf. skilanefnd, sem tók við öllum heimildum á stjórn bankans, hafi hollensk yfirvöld ítrekað farið fram á við þarlendan dómstól að sérstakir skiptastjórar („Administrators“) yrðu skipaðir yfir starfsemi útibús bankans í Amsterdam og dótturfélagsins Sorbus, sem hluti útlána útibúsins í Amsterdam voru vistuð í.

„Þrátt fyrir andmæli Landsbanka Íslands hf. varð dómstóllinn við framangreindum kröfum og skipaði tvo skiptastjóra tímabundið til 18 mánaða, sem tóku þegar yfir rekstur og meðferð allra eigna útibúsins og Sorbusar,“ segir í tilkynningunni.

„Mikill kostnaður hlaust af framangreindu fyrirkomulagi sem bankinn hefur frá upphafi gert fyrirvara við. Nýverið fóru hollensku skiptastjórarnir fram á við þarlendan dómstól að skipunartími þeirra, sem rennur út þann 13. apríl n.k., yrði framlengdur. LBI mótmælti framlengingunni enda hefur því verið haldið fram frá upphafi að skipun skiptastjóranna hefði verið andstæð lögum sem byggð eru á gildandi Evróputilskipunum. Með úrskurði þann 8. mars s.l. féllst dómstóllinn á kröfur Landsbanka Íslands hf. og hafnaði að framlengja skipunartíma skiptastjóranna.“

Þá kemur fram að strax í kjölfarið hafi viðræður hafist milli bankans og skiptastjóranna um fyrirkomulag yfirtöku Landsbanka Íslands hf. á starfsemi og eignum útibúsins í Amsterdam og Sorbusar. Lauk þeim viðræðum með samkomulagi milli aðila sem m.a. felur í sér fullt forræði bankans á umræddum starfseiningum og eignum þeirra frá og með morgundeginum, 13. apríl.