Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, og slitastjórn gamla bankans, LBI, munu í dag skrifa undir samkomulag um endanlegt uppgjör milli nýja bankans og þrotabúsins. Þá verður ljóst hvert virði skilyrts skuldabréfs, sem nýi bankinn mun gefa út til hins gamla, verður. Ef virði þess verður 92 milljarðar mun þrotabú LBI afsala sér öllum eignarhlut sínum í Landsbankanum. Hluturinn rennur til ríkisins, að undanskildum allt að 2% hlut sem starfsmenn nýja bankans geta eignast, samkvæmt samkomulagi frá árinu 2009.

Viðskiptablaðinu er ekki kunnugt um  endanlega skilmála samkomulagsins en það verður tilkynnt síðar í dag. Skrifa á undir samninginn klukkan 16, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

EIns og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá hafa sérfræðingar á vegum Deloitte í London unnið að því að meta undirliggjandi eignir skilyrta skuldabréfsins. Í bókum Landsbankans er það bókfært á um 87,5 milljarða króna og hækkaði á síðasta ári um 16 milljarða.

Steinþór var í viðtali við Viðskiptablaðið um miðjan síðasta mánuð. Hér að neðan má lesa þann hluta viðtalsins sem snéri að skilyrta skuldabréfinu og uppgjörinu við gamla bankann.

Viðtalið í heild má lesa í Viðskiptablaðinu þann 14. mars.

Nokkuð hefur verið fjallað um út­ gáfu skilyrts skuldabréfs til LBI hf. (gamla bankans) sem markar upp­ gjör milli gamla og nýja bankans. Það er nú metið á um 87,5 milljarða í bókum Landsbankans. Erlendir sérfræðingar á vegum Deloitte hafa unnið að því að meta undirliggjandi eignir. Hvað þýðir þessi hækkun fyr­ ir bankann og byggir nýtt mat, sem hefur hækkað um 16 milljarða milli ára, á vinnu erlendu sérfræðinganna eða er matið ykkar eigið?

„Þetta er okkar mat. Erlendu sérfræðingarnir ljúka sinni vinnu í þessum mánuði. Auðvitað getur þeirra mat verið hærra eða lægra en þær breytingar færast þá inn í bækur bankans á árinu 2013. Þá breytist skilyrta bréfið til samræmis og allar líkur á að það hafi einnig áhrif á eignahliðina, en það sjáum við betur þegar við höfum séð þeirra rökstuðning,“ segir Steinþór.

Skilyrta bréfið verður gefið út í lok þessa mánaðar. Það getur að hámarki orðið 92 milljarðar. Ef það nær hámarki mun þrotabú gamla bankans láta af hendi tæplega 19% eignarhlut sinn í nýja bankanum. Samkvæmt samningum frá lok árs 2009 rennur hluturinn til ríkisins, að undanskildum um 2% hlut sem starfsmenn Landsbankans eignast.

Hvaða eignir ráða virði bréfsins?

„Með útgáfu bréfsins er verið að ganga frá kaupverði bankans. Þegar menn sömdu árið 2009 var mikill ágreiningur uppi um mat á eignum. Þá var ákveðið að láta tímann líða út árið 2012 áður en til endanlegs uppgjörs kæmi. Reynt yrði að vinna vel með tilteknar eignir og bæta stöðu þeirra þannig að eignamat yrði hærra. Fimmtán prósent af aukningu í eignamati hafa farið til nýja bankans og 85% til þess gamla. Samningurinn frá 2009 var þannig byggður upp að það yrði hagur bæði nýja og gamla bankans að eignamat myndi batna auk þess sem ríkið myndi njóta góðs af með því að fá aukinn hlut í bankanum. Stór hluti af eignasafninu er undir í þessu mati og eru erlendu sérfræðingarnir að fara yfir þetta allt saman,“ segir Steinþór. Hann telur upp ýmsa liði sem sérfræðingarnir skoða sem snúa að heilbrigði viðskiptavina, greiðslugetu þeirra, tryggingum og virði fullnustueigna sem bankinn hefur eignast.