Nýjasta bók spennusagnahöfundarins Arnaldar Indriðasonar, Einvígið , er enn í fyrsta sæti á metsölulista Rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir dagana 27. nóvember til 3. desember.

Þetta er þriðja vikan í röð sem Einvígið trónir á toppi listans sem nú er tekinn saman vikulega og birtur á vef Rannsóknarsetursins. Einvígið er jafnframt þessu þriðja mest selda bók á landinu það sem af er ári.

Í öðru sæti listans er nýjasta bók Yrsu Sigurðardóttur, Brakið en sú bók kemur beint inn á Topp 10 listann í þessari viku. Í þriðja sæti listans yfir metsölubækur í síðustu viku er Heilsuréttir Hagkaups eftir Sólveigu Eiríksdóttur, sem einnig kemur ný inn á Topp 10 listann.

Í fjórða sæti listans er jafnframt ný bók, Útkall – ofviðri í Ljósufjöllum eftir Óttar Sveinsson. Þá er Hollráð Hugos eftir Hugo Þórisson í fimmta sæti og loks Stóra Disney köku- og brauðgerðabókin í sjötta sæti.

Gamlinginn enn vinsælasta bókin á árinu

Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir sænska rithöfundinn Jonas Jonasson, er enn í efsta sæti listans yfir mest seldu bækurnar á þessu ári, þ.e. frá 1. janúar á þessu ári. í öðru sæti er Stóra Disney köku- og brauðgerðabókin . Í þriðja sæti er Einvígið sem fyrr segir.

Önnur bók Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig, sem kom út fyrir síðustu jól er í fjórða sæti listans en hún hefur verið ofarlega á listanum síðustu mánuði.

Sjá listann í heild sinni.

Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir sænska rithöfundinn Jonas Jonasson
Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf eftir sænska rithöfundinn Jonas Jonasson