Verðmætir, íslenskir peningaseðlar eru nú til sölu hjá danska uppboðshúsinu Bruun Rasmussen og á uppboðsvefnum eBay.com . Samanlagt andvirði þessara seðla er á annan tug milljóna króna, að því er segir í Morgunblaðinu í dag.

Á eBay má m.a. sjá 500 króna peningaseðil frá árinu 1944, útgefinn af Landsbanka Íslands. Uppsett verð er 14.495 dollarar, eða um 1,7 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er þessi seðill í íslenskri eigu. Um er að ræða prufu (e. specimen) sem send er til banka í hvert sinn sem nýr seðill kemur út. 500 krónur árið 1944 voru miklir peningar í þá daga en þessir seðlar voru aðeins í umferð til ársins 1948.