Brynjar Níelsson og Guðni Ágústsson ættu að vera öllum landsmönnum kunnugir. Brynjar var þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá árinu 2013 og þangað til nýlega. Guðni var fyrst kjörinn á þing árið 1987 fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi. Hann var landbúnaðarráðherra frá 1999 til 2007 og formaður Framsóknarflokksins frá 2007 til ársins 2008, en árið 2008 sagði hann af sér formennsku flokksins og þingmennsku.

Það getur verið snúið að ná tveimur viðmælendum saman, hvað þá þegar þeir eru búsettir hvor í sínum landshlutanum en það gekk vel að leiða saman þá Brynjar og Guðna, enda sá fyrrnefndi atvinnulaus þegar viðtalið er tekið og sá síðarnefndi kominn á eftirlaun.

Guðni er nýlega fluttur aftur á Selfoss og stakk upp á að viðtalið færi fram í Risinu, vínbar Mjólkurbúsins á Selfossi sem fyrr á árinu opnaði dyr sínar eftir að gamla Mjólkurbú Flóamanna var endurreist í nýjum miðbæ Selfoss. Við setjumst niður klukkustund fyrr en vínbarinn opnar alla jafna en Guðni sá til þess að barinn væri opinn þegar gesti bar að garði. „Átta og hálfur dropi gleður en passi menn ekki upp á magnið getur skaðinn orðið mikill," segir hann þegar barþjónninn kemur aðvífandi með gin og tónik.

Guðni fræðir okkur um sögu gamla Mjólkurbús Flóamanna, sem var við lýði á árunum 1929 til 1956. Honum þykir mikils til endurreisnar mjólkurbúsins koma og stendur mjólkin honum nærri, en hann var mjólkureftirlitsmaður á árunum 1976 til 1987.

„Ef ekki væri fyrir gamla Mjólkurbúið hefði Selfoss ekki risið," segir Guðni og lokar fræðsluerindinu með kvæði Steins Steinarr, Mjólkurbú Flóamanna, sem segir í lokin:

Trú þú á alvaldið eina,
þá einu sönnu kú.
Ég er Mjólkurbú Flóamanna,
og mjólkin ert þú.

Mikilvægt að vera trúr sjálfum sér

Guðni fékk stjórnmálagenið í föðurarf, en faðir hans var þingmaður á árum áður. Brynjar starfaði sem lögmaður lengst af en spurður að því hvað rak hann út í stjórnmálin segir Brynjar:

„Það voru svona menn eins og Guðni, mig langaði til að hafa vettvang til að rífa kjaft eins og þeir. Ég taldi mig hafa eitthvað að segja og þótti gaman að rugla í fólki." Þá hnussar í Guðna sem segir: „Þú hefur ekkert verið að gerðinni, ólíkt svo mörgum á þingi í dag.

„Við sögðum gjarnan þegar ég var þar að sumir þingmenn sem ekki skáru sig úr, þeir komust ekki í spaugstofuna, Jóhannes hermdi ekki eftir þeim og Sigmund teiknaði þá ekki, þeir entust bara í eitt kjörtímabil," segir hann og hefur lög að mæla í huga Brynjars.

„Það eru 26 nýir þingmenn núna, næstum helmingur þings, þannig að menn eru að duga stutt. Mér finnst þetta alltaf verða veikara og veikara, ég verð bara að segja eins og er. Þarna er sífellt stærri hópur sem mér finnst aldrei hafa neitt að segja og ekki vera í eðli sínu stjórnmálamenn. Þetta þarf ekki að vera neitt verra fólk í sjálfu sér en mér finnst þetta flatara, færri týpur sem koma inn og taka sviðið. Þetta er meira og minna orðið eitthvað jarm um eitthvað sem kemur af samfélagsmiðlum."

Nánar er rætt við þá Brynjar og Guðna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .