Skuldabréfavísitala Gamma (GBI) hækkaði um 0,7% í mars og hefur nú hækkað um 3,1% frá áramótum.

Þá jókst hlutfall hlutfall óverðtryggðra bréfa í GBI og hefur nú náð hámarki sínu um 29,97%. Síðast náði hlutfallið hámarki sínu í 29,85% mánuðinn áður en skuldabréfaflokkurinn RB10 0310 datt úr vísitölunni.

Þetta kemur fram í mánaðaryfirliti Gamma. Þar kemur fram að slök ávöxtun hafi verið af verðtryggðum bréfum og lækkaði sá hluti vísitölunnar (GAMMAi) um 0,13% í mars. Hins vegar var góð ávöxtun á óverðtryggðum skuldabréfum þannig að óverðtryggði hluti vísitölunnar (GAMMAxi) hækkaði um tæp 3%.

Það sem af er þessu ári hefur verið um 3,9% meiri ávöxtun af óverðtryggðum bréfum heldur en verðtryggðum þ.e. GAMMAxi hefur hækkað um 5,9% en GAMMAi hefur hækkað um 2%.

Í yfirliti Gamma kemur fram að tvö frumútboð voru á ríkisbréfum í mars; samtals var gefið út 3,4 milljarðar króna í RB25, sem er nú stærsti flokkur ríkisbréfa (78 milljarðar), og gefið var út 14 milljarðar í RB11. Jókst hlutfall RB25 um 0,4% og RB11 um 1,3%.

Einnig var útboð hjá Íbúðalánasjóði og gefnir voru út tæpir 6 milljarðar í flokki íbúðabréfa.