Á föstudag fékk GAMMA CapitalMagagement Limited sjálfstætt starfsleyfi til starfa í Bretlandi. Hafði félagið áður sinnt starfsemi í London í rétt rúmlega ár á grundvelli íslensks starfsleyfis.

Veitir leyfið frá breska fjármálaeftirlitinu GAMMA að bjóða uppá víðtækari fjármálaþjónustu en áður.

Fyrst eftir fyrirhugað afnám hafta

„Í fyrra varð GAMMA fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið til þess að hefja starfsemi í London eftir tilkynningu um fyrirhugað afnám hafta. Markmið eigenda og stjórnenda GAMMA hefur verið að útvíkka og styrkja grundvöll starfseminnar með því að fá sjálfstætt starfsleyfi í Bretlandi og hefur þeim stóra áfanga nú verið náð. Með þessu skrefi verður GAMMA í enn betri stöðu en áður til að veita viðskiptavinum sínum öfluga þjónustu á alþjóðlegum vettvangi, meðal annars þegar kemur að erlendum verkefnum, fjárfestingum, fjármögnun og greiningarvinnu,“ segir Gísli Hauksson, forstjóri Gamma í fréttatilkynningu.

Í eigu sömu hluthafa og GAMMA á Íslandi

Nær starfsemi fyrirtækisins nú með nýja leyfinu til rekstrar og stýringar á verðbréfasjóðum, fjárfestingarsjóðum og fagfjárfestasjóðum, eignastýringar, ráðgjafar í tengslum við fjárfestingar, svo sem í verðbréfum, sjóðum og fyrirtækjaverkefnum, fyrirtækjaráðgjafar og útgáfu á greiningum.

Fyrirtækið sem heitir GAMMA Capital Management Limited er í eigu sömu hluthafa og GAMMA Capital Management hf. á Íslandi, en í skrifstofum fyrirtækisins í Bretlandi starfa nú fjórir starfsmenn. Í fyrirtækinu á Íslandi starfa rúmlega þrjátíu starfsmenn, og er fyrirtækið með yfir 90 milljarða króna í stýringu fyrir fagfjárfesta, fyrirtæki og almenning í yfir fimmtán sjóðum.