*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 17. október 2019 19:01

GAMMA fjárfesti í kirkju í Harlem

Sjóður hjá GAMMA fjárfesti í að rífa gamla kirkju í Harlem í New York og breyta í ellefu hæða íbúðabyggingu.

Ingvar Haraldsson
Verið er að rífa kirkjuna og stefnt er að því að framkvæmdir við hina nýju byggingu hefjist á þessu ári.
Aðsend mynd

Sjóðurinn GAMMA:Temple, í rekstri hjá GAMMA, var stofnaður um fasteignaverkefni sem snýst um að rífa gamla kirkju í Harlem í New York og breyta í ellefu hæða íbúðabyggingu.

Krikjan ber nafnið Baptist Temple Church og var áður sýnagóga. Verkefnið var unnið í samvinnu við kanadískt fjárfestingafélag. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er nú unnið að því að rífa kirkjuna og stefnt að því að framkvæmdir við bygginguna sjálfa hefjist á þessu ári. Fjárfestingin Temple í verkefninu hleypur á nokkur hundruð milljónum króna.

Verkefnið var eina stór verkefni GAMMA í Bandaríkjunum sem komst á koppinn. Fyrirtækið opnaði skrifstofu í New York í byrjun árs 2017. Meðal annarra verkefna sem GAMMA hugðist koma á fót í Bandaríkjunum var fasteignasjóður í Flórída og sjóður sem hugðist sérhæfa sig í verkefnum tengdum sjávarútvegi. Þeir sjóðir fóru aldrei formlega af stað. Skrifstofunni í New York var lokað áður en Kvika eignaðist GAMMA formlega fyrr á þessu ári. 

Sjá einnig: Ákærður fyrir tugmilljarða fjársvik

Skrifstofan í New York var hluti af útrás fyrirtækisins, sem hugðist hasla sér völl á erlendri grundu í kringum losun gjaldeyrishafta. GAMMA opnaði einnig skrifstofur í London og Sviss. Skrifstofunum í Sviss var lokað í byrjun árs 2018. Í kjölfarið lét Gísli Hauksson, fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, af störfum hjá GAMMA en Gísli hafði leitt útrás fyrirtækisins.

Sjá einnig: Vöknuðu upp við vondan draum

Við kaup Kviku banka á GAMMA var starfsemi félaganna í London sameinuð undir merkjum Kviku. Þann 30. september var greint frá því að sjóðurinn GAMMA:Anglia, sem stofnaður var árið 2017 um fasteignafjárfestingar í Bretlandi. hafði verið færður niður um nærri helming. Verkstjórn samstarfsaðila í Bretlandi mun hafa verið verulega ábótavant, kostnaður hafi verið vanmetinn auk þess að ekki fékkst leyfi frá skipulagsyfirvöldum fyrir fjölbýlishúsi sem til stóð að byggja.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: New York GAMMA Harlem