Líklega er óhætt að segja að sú skoðun að peningaprentunar vestrænna ríkja muni áður en um langt líður leiða til umtalsverðrar verðbólgu, sé ríkjandi í dag.

Einnig það að gríðarlegur fjárlagahalli flestra stærstu hagkerfa heimsins muni valda offramboði á ríkisskuldabréfum sem muni á endanum þrýsta verulega upp langtímavöxtum að endingu.

Þetta kemur fram í fréttabréfi GAM Management (GAMMA) þar sem fjallað er um framtíðarhorfur á skuldabréfamarkaði.

Þar kemur fram að ofangreindum skoðunum sé oft sérstaklega beint að Bandaríkjunum og samhliða því algengt að því sé haldið fram að dollarinn muni veikjast og gull hækka í verði.

Þó séu ekki allir þessu sammála. Þannig megi nefna nokkra málsmetandi einstaklinga sem eru á öndverðri skoðun og telja að framundan sé verðhjöðnun, lækkandi langtíma vextir og styrking dollarsins.

„Einn harðasti fylgismaður þessa „contrarian“ sýnar er Hugh Hendry, sjóðstjóri og stofnandi Eclectica Management,“ segir í fréttabréfi GAMMA..

„Þótt Hendry verði seint sakaður um að vera lítillátur í skoðunum sínum, verður það ekki tekið af honum að fáir koma skoðun sinni á jafn áhrifaríkan og e.t.v. áhugaverðan hátt á framfæri.“

Þá vitnar GAMMA til viðtals við Hendry (sjá hér neðst) en bendir á að í samhengi við þetta gæti verið athyglisvert að setja greiningu Hughs í samhengi við íslenska skuldabréfamarkaðnum og hvort sömu atriði gætu átt að einhverju leyti við hér.

Fjármunir leita í ríkistryggð skuldabréf og innlán

Þannig segir GAMMA að markaðurinn hér hafi haft talsverðar áhyggjur af útgáfu ríkissjóðs á næstu misserum og eðlileg spurning er hvort og hvar íslenska ríkið myndi finna kaupendur að öllum þessum skuldabréfum.

„Það er hins vegar áhugavert að skoða hvaða breytingar hafa orðið á íslenskum fjármagnsmarkaði og hvaða breytingar eru fyrirsjáanlegar ef þróun hér verður með svipuðum hætti og í greiningu Hugh Hendry,“ segir í fréttabréfi GAMMA.

Sem dæmi er nefnt að hlutabréfamarkaður á Íslandi sé í raun ekki til lengur sem og fyrirtækjaskuldabréfamarkaðurinn. Þá hafi sparnaður einstaklinga og lífeyrissjóða áður farið að megninu til í hlutabréf, fyrirtækjaskuldabréf (m.a. peningamarkaðssjóði) og hefðbundin innlán en nú geti þeir fjármunir nær eingöngu leitað í ríkistryggð skuldabréf og innlán bankanna, „að öllum líkindum næstu 2-3 ár á meðan gjaldeyrishöft eru við líði,“ segir í fréttabréfi GAMMA.

„Ekki er við því að búast að þróun hér verði með öðrum hætti en annars staðar að sparnaðarhlutfall („savings rate“) muni snarhækka. M.ö.o. munum einstaklingar verja mun hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum í sparnað eða að greiða niður núverandi lán, sem mun á móti minnka lánveitingar Íbúðalánasjóðs, lífeyrissjóða og draga enn frekar úr innlánaþörf lánastofnana,“ segir í fréttabréfinu.

Hér er rúmlega mánaðar gamalt viðtal við Hugh Hendry sem sérstaklega er mælt með í fréttabréfi GAMMA, ásamt greiningu Róberts Helgasonar.

Jul 5: Hugh Hendry - bond bull, equity bear

Jul 5: Hugh Hendry says Fed hasn't done enough

Jul 5: Hugh Hendry - bearish on China and gold