GAMMA Global Invest, sérhæfður alþjóðlegur fjárfestingarsjóður GAMMA Capital Management, hóf starfsemi í dag, að fenginni staðfestingu frá Fjármálaeftirlitinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Sjóðurinn verður skráður í evrum og hefur heimild til fjárfestinga erlendis, í samræmi við nýsamþykkt lög um afnám gjaldeyrishafta og geta fjárfestar nýtt erlendar fjárfestingarheimildir sínar samkvæmt þeim lögum, allt að 30 milljónir króna, til fjárfestinga í sjóðnum. Hækkar sú fjárhæð í 100 milljónir króna um áramótin.

Sjóðurinn er opinn almennum fjárfestum og stofnanafjárfestum sem vilja auka vægi erlendra eigna í eignasöfnum sínum.

Sjóðurinn fjárfestir í erlendum verðbréfasjóðum (UCITS) og sérhæfðum sjóðum (AIF), þar sem undirliggjandi eignir geta meðal annars verið hlutabréf, skuldabréf, fasteignir og sérhæfðar fjárfestingar. Auk þess sem sjóðurinn hefur heimild til beinna fjárfestinga, m.a. í erlendum hlutabréfum og skuldabréfum,“ segir í tilkynningunni.

Þar er haft eftir Gísla Haukssyni, forstjóra GAMMA Capital Management, að undirbúningur að starfsemi sjóðsins hafi staðið í tvö ár og hefur GAMMA á því tímabili stofnað til samstarfs við fjölmarga erlenda banka og sjóðastýringarfyrirtæki til að tryggja aðgang sjóðsfélaga að fjölþættum fjárfestingatækifærum.