Frá áramótum hefur Úrvalsvísitala Kauphallarinnar (OMXI8) lækkað um rúmlega 10%. Aðalvísitala skuldabréfa (NOMXIBB) hefur hækkað um 5,1%, óverðtryggða skuldabréfavísitala Kauphallarinnar (NOMXINOM) hefur hækkað um 8,7% og sú verðtryggða (NOMXIREAL) um 3,3%.

Óverðtryggð skuldabréf hafa sótt í sig veðrið á árinu á meðan hlutabréfamarkaðurinn hefur lækkað talsvert. Það ætti því ekki að koma á óvart að meðal þeirra fimm verðbréfa- og fjárfestingarsjóða rekstrarfélaga sem hafa skilað hæstri ávöxtun það sem af er ári eru þrír óverðtryggðir sjóðir í meðallöngum skuldabréfum.

Miðað við einfalt meðaltal hafa tæplega 5% af virði átta innlendra hlutabréfasjóða þurrkast út á árinu og aðeins tveir slíkir sjóðir hafa skilað jákvæðri ávöxtun. Sjóðir í erlendum hlutabréfum hafa flestir skilað neikvæðri ávöxtun vegna mikillar styrkingar krónunnar, þrátt fyrir vísitöluhækkanir á erlendum mörkuðum.

Góður árangur óverðtryggðra skuldabréfasjóða

Þegar litið er til allra verðbréfa- og fjárfestingarsjóða rekstrarfélaga hefur Total Return fjárfestingarsjóður GAMMA borið hæstu ávöxtunina frá áramótum. Það sem af er ári þann 5. desember nemur nafnávöxtun sjóðsins 9,8% og síðustu tólf mánuði er hún 10,8%.

Sjóðurinn er virkur og blandaður. Hann fjárfestir að meginhluta í skráðum verðbréfum og innlánum, hvort sem er með beinni fjárfestingu eða í gegnum aðra sjóði. Sjóðurinn hefur einnig heimild til að fjárfesta að hluta til í óskráðum verðbréfum sem og afleiðum. Næst koma þrír óverðtryggðir og meðallangir sjóðir í íslenskum skuldabréfum.

Fjárfestingarsjóður Íslandssjóða (IS Óverðtryggður sjóður) hefur skilað 7,2% ávöxtun frá áramótum, verðbréfasjóður Stefnis (Stefnir – Ríkisbréfasjóður óverðtryggður) 7% og ávöxtun verðbréfasjóðs Landsbréfa (Sparibréf óverðtryggð) nemur 6,7%.

Ástæðan fyrir góðum árangri óverðtryggðra skuldabréfa og sjóða, sérstaklega til meðallangs tíma, er tvíþætt. Annars vegar hefur verðbólgan verið lægri en búist var við í upphafi árs og verðtryggð bréf hafa skilað lægri ávöxtun á móti. Hins vegar hefur vaxtalækkun Seðlabankans frá því í lok ágúst og væntingar um frekari vaxtalækkanir haft meiri áhrif til lækkunar á óverðtryggðum vöxtum heldur en raunvöxtum.

Fjárfestingasjóður Júpíters (Júpíter – Lausafjársjóður), sem er skammtímasjóður, hefur skilað fimmtu hæstu ávöxtuninni það sem af er ári, eða 5,6%, en sjóðurinn fjárfestir fyrst og fremst í innlánum fjármálafyrirtækja.

Þegar verið er að bera saman sjóði rekstrarfélaga er mikilvægt að hafa nokkra þætti í huga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .