GAMMA Capital Management hlaut um síðustu helgi verðlaun fyrir bestu sjóðastýringu í Evrópu á grundvelli efnahagsgreiningar (Macro Fund), í flokki sjóða undir 500 milljónum dollara. Verðlaunin voru veitt af fagtímaritinu HFM Week við hátíðlega athöfn í London þar sem helstu sjóðastýringarfyrirtæki í Evrópu kepptu um verðlaun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá GAMMA.

Gísli Hauksson, stjórnarformaður og annar af stofnendum GAMMA, tók við verðlaununum fyrir hönd félagsins. GAMMA hóf starfsemi í London árið 2015 og stefnir á opnun skrifstofu í New York síðar á þessu ári.

„Þetta er einstök viðurkenning fyrir GAMMA, og sérlega ánægjulegt þar sem við höfum unnið eftir þeirri sýn frá upphafi að byggja fjárfestingar sjóða á ítarlegri efnahagsgreiningu. Þá gefur þetta okkur mikinn byr í seglin í alþjóðlegri starfsemi félagsins. Verðlaunin eru þó ekki síður mikilvæg staðfesting á því að vinna okkar á erlendri grundu á undanförnum misserum er að skila árangri og að GAMMA getur nú borið sig saman við fremstu sjóðastýringarfyrirtæki Evrópu,“ segir Gísli Hauksson.