Fjármálafyrirtækið Gamma hefur sent Seðlabanka Íslands bréf, þar sem félagið segir bankann fremja gróft brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulega. Þetta kemur fram á vef Morgunblaðsins , en blaðið hefur bréf Gamma undir höndum. Seðlabanki Íslands hefur á undanförnum mánuðum veitt lífeyrissjóðum auknar heimildir til fjárfestinga erlendis.

Fyrirtækið telur það óskiljanlegt að önnur fjármálafélög fái ekki sömu heimildir. Um sé að ræða tvær tegundir af sparnaðarformum almennings, og ekki sé hægt að mismuna á þessum grundvelli.

Verði ekki komið til móts við óskir Gamma, ætlar félagið að íhuga málsókn gegn bankanum og senda inn kvartanir til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA.