*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 30. september 2019 15:02

Gamma rýrir afkomu tryggingafélaganna

Niðurfærsla fasteignasjóðsins Novus Gamma veldur 155 milljóna króna tapi hjá Sjóvá og 300 milljónum hjá TM.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Afkoma Gamma Novus, fasteignasjóðs í stýringu Kviku banka, hefur rýrt afkomu Sjóvá-Almennra trygginga hf um 155 milljónir króna og um 300 milljónir hjá Tryggingamiðstöðinni. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun sendi TM frá sér afkomuviðvörun í morgun þar sem afkoma félagsins var færð niður um allt að 490 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi.

Kom hún í kjölfar annarrar afkomuviðvörunar Kviku banka, þar sem bankinn sagði að tveir sjóðir dótturfélagsins Gamma, hefðu verið færðir umtalsvert niður.

Nú hefur Sjóvá einnig sent frá sér afkomuviðvörun vegna niðurfærslu sjóðsins en Sigurður Viðarsson forstjóri TM hefur staðfest í samtali við Viðskiptablaðið að stærsti hlutinn af niðurfærslunni hjá félaginu, eða 300 milljónir króna komi vegna Novus sjóðs Gamma sem hafi verið færður niður í nánast ekki neitt.