Vaxtalækkanir Seðlabankans í morgun eru umfram það sem markaðsaðilar höfðu gert ráð fyrir og jákvætt að Seðlabankinn sjái tækifæri til þess að lækka vexti þó betur megi ef duga skal.

Þetta kemur fram í viðbrögðum GAM Management (GAMMA) en sem kunnugt er lækkaði Seðlabankinn í morgun vexti viðskiptareikninga innlánsstofnana úr 9% í 8,5%, vexti á lánum gegn veði í sjö daga (stýrivexti) úr 11% í 10% og loks hámarksvöxtum innstæðubréfa úr 10,25% í 9,75%.

„Stöðugt gengi krónu og hjaðnandi verðbólga (utan skatta) virðist vera forsenda fyrir áframhaldandi slökun á peningastefnu samkvæmt yfirlýsingu Seðlabankastjóra en það er samt einsog Seðlabankinn geri sér ekki grein fyrir að það tekur um 6-12 mánuði hið minnsta fyrir vaxtabreytingar að skila sér út í hagkerfið þannig að til að takast á við stöðuna í dag hefði þurft að gera ráðstafanir fyrir um 6-12 mánuðum síðan!,“ segir í viðbrögðum GAMMA.

„Að auki vitnar Seðlabankinn sífellt í ársverðbólgu sem er nú 8,6% og spár gera ráð fyrir að nái 2,5% í byrjun árs 2011. Þannig er verið að stýra hagkerfinu með vöxtum sem hafa áhrif eftir 6-12 mánuði með því að líta aftur í tímann um 12 mánuði.“