Vaxtastigið í landinu almennt mun halda áfram að lækka og útspil bankanna að bjóða fasta óverðtryggða vexti fyrir þá sem skipta úr erlendum lánum í innlend leiðir til þess að bankarnir muni leitast við að halda innlánsvöxtum bankans lágum til að viðhalda vaxtamun.

Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi GAM Management (GAMMA) en þar er tekið dæmi um Arion Banka (áður Nýja Kaupþing) sem býður 6,0% fasta vexti í 3 ár sem er 1,34% lægra heldur en ávöxtunarkrafa á RB 13 (Ríkisbréf með gjalddaga 2013).

„Það er því enn þrýstingur á lægra vaxtastig í landinu og útspil ríkisstjórnarinnar að tilkynna um nýtt frumvarp um innstæðutryggingar án þess að gera skilmerkilega grein fyrir því að það fæli ekki í sér breytingar á yfirlýsingu um fulla ábyrgð á innstæðum olli töluverðum flótta úr sparifé yfir í örugg bréf sem hefur valdið lækkandi ávöxtunarkröfu á markaði,“ segir í viðbrögðum GAMMA.

Þá segir GAMMA að lausnir bankanna á skuldbreytingum sé líklega eitt það jákvæðasta sem sést á íslenska markaðnum – höfuðstóll lána lækkaður og breyttur í íslenskar krónur á föstum óverðtryggðum vöxtum sem leiði í mörgum tilfellum til lækkunar á greiðslubyrði þar sem vaxtaálög bankanna á erlend lán séu oft á tíðum mjög há.

„Má leiða líkur að því að sum heimili hafi því meira á milli handanna í kjölfarið sem er jákvætt en stór hluti af því fer síðan því miður aftur í skattahækkanir,“ segir GAMMA.